KR vann markaleik fyrir norðan

Óskar Örn Hauksson skoraði þriðja mark KR í kvöld.
Óskar Örn Hauksson skoraði þriðja mark KR í kvöld. Eggert Jóhannesson
KR lagði KA, 3:2, er liðin mættust á Akureyrarvelli í 9. umferð Pepsi deildar karla í knattspyrnu í dag í leik sem var stórskemmtilegur.

Leikurinn var aðeins tveggja mínútna gamall þegar Tobias Thomsen skoraði með skalla eftir fína skyndisókn frá KR. Arnór Sveinn komst þá inn í teiginn og átti flotta sendingu á Tobias sem þakkaði fyrir með marki.

Stuttu síðar fékk Ásgeir Sigurgeirsson frábært færi fyrir heimamenn. Beitir missti þá fyrirgjöf út í teiginn eftir að samherji hans keyrði inn í hann. Boltinn barst á Ásgeir sem setti boltann í stöngina fyrir opnu marki.

Þetta átti eftir að reynast dýrt því á 15. mínútu leiksins tvöfölduðu gestirnir forystu sína. Þar var að verki Kennie Chopart sem skallaði flotta fyrirgjöf frá Arnóri Sveini í stöngina og inn. Staðan í hálfleik 2:0 fyrir gestina.

Heimamenn hleyptu svo lífi í leikinn þegar þeir minnkuðu muninn á 54. mínútu. Elfar Árni skoraði þá úr víti eftir að Óskar Örn hafði fengið boltann í hendina eftir hornspyrnu. Staðan hélst þó ekki óbreytt lengi því sex mínútum seinna skoraði Óskar Örn Hauksson þriðja mark KR með skalla eftir fyrirgjöf frá Arnóri Sveini.

KA-menn minnkuðu muninn aftur á 85. mínútu Þegar Elfar Árni skoraði með skalla eftir hornspyrnu frá Hallgrími Mar. Mörkin urðu ekki fleiri og 2:3 sigur KR-inga staðreynd. Eftir leikinn er KR í 7. sæti með 11 stig en KA-menn eru í því fjórða með 12 stig.
KA 2:3 KR opna loka
90. mín. Davíð Rúnar Bjarnason (KA) kemur inn á Davíð Rúnar að spila sínu fyrstu mínútur í sumar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert