Kallar ummæli Rúnars Páls fásinnu

Gunnlaugur Jónsson.
Gunnlaugur Jónsson. Ljósmynd/Eva Björk Ægisdóttir

Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA var nokkuð sáttur við 2:2 jafntefli sinna manna gegn Stjörnunni á útivelli í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag. Stjarnan komst tvisvar yfir í leiknum en í bæði skiptin tókst Skagamönnum að jafna. 

„Heilt yfir er ég nokkuð sáttur við uppskeruna, þó við höfum fengið færi til að klára leikinn. Þeir fengu líka sín færi og þetta var opið í seinni hálfleiknum. Við vorum í miklum vandræðum með þá í byrjun leiks, þeir komu okkur svolítið á óvart með að spila 3-5-2."

„Við ákváðum þegar að tíu mínútur voru eftir á fyrri hálfleik að fara í sama kerfi og það virkaði vel strax. Það var svekkjandi að fá á sig mark í byrjun seinni hálfleiks, þetta setti okkur svolítið út af laginu. Víð sýndum hins vegar karakter og náum að jafna."

„Momentið var með okkur þegar flautað var til hálfleiks var með okkur. Það var meira sjálfstraust og holningin var góð. Við byrjuðum seinni hálfleikinn vel og Stjörnumenn voru í vandræðum og við komum okkur í færi, það er því mjög sárt að fá þetta mark á okkur í byrjun seinni hálfleiks."

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar sagði sitt lið hafa verið með mikla yfirburði í leiknum og það hafi átt að skora mun fleiri mörk. Gunnlaugur viðurkenndi að sú hafi verið raunin fyrsta hálftímann, en að leikurinn hafi jafnast eftir því sem leið á hann. 

„Ég er alls ekki sammála því, ég er sammála því að það hafi verið miklir yfirburðir fyrsta hálftímann og við vorum í miklum vandræðum með þá og máttum þakka fyrir að vera bara 1:0 undir. Að segja að þeir hafi verið með yfirburði allan leikinn er fásinna."

Gunnlaugur er mjög ánægður með sóknarleik sinna manna.

„Við erum að skora mörk í öllum regnbogans litum. Tryggvi er einn af mörgum sem eru að skora. Margir höfðu áhyggjur af því að við yrðum í vandræðum með að skora og að Garðar þyrfti að vera í sama stuði og í fyrra. Það eru komnir níu markaskorarar hjá okkur og 19 mörk, við erum í góðu lagi og við erum að verða þéttari til baka."

Hann segir Garðar Gunnlaugsson eiga sitt besta inni. 

„Garðar á eftir að komast í gang, hann er að koma úr erfiðum veikindum og meiðslum. Hann fékk heilan leik í dag og það eru níu dagar í næsta leik, ég hef engar áhyggjur af honum," sagði Gunnlaugur að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert