Njarðvíkingar komnir á toppinn

Njarðvíkingar stilltu sér upp í klefanum eftir leik.
Njarðvíkingar stilltu sér upp í klefanum eftir leik. Ljósmynd/Facebook: Njarðvík, knattspyrnudeild.

Njarðvík fór upp fyrir Magna og í toppsæti 2. deildar karla í knattspyrnu og Afturelding komst aftur á sigurbraut er 8. umferð deildarinnar kláraðist með tveimur leikjum í dag en í gær fóru fram fjórir leikir.

Njarðvík vann Vestra í hörku á Torfnesvelli fyrir vestan 4:2. Njarðvík komst í 1:0 eftir sjálfsmark frá Vestra á 20. mínútu en Andri Fannar Freysson bætti við forystuna fyrir hálfleik og staðan 2:0.

Aurelien Norest minnkaði muninn á 61. mínútu fyrir Vestra í 2:1 en Arnar Helgi Magnússon skoraði aðeins fimm mínútum síðar, 3:1.

Þórður Gunnar Hafþórsson minnkaði muninn á ný fyrir Vestra með marki á annarri mínútu uppbótartíma en Krystian Wiktorowicz gulltryggði Njarðvík 4:2 sigurinn.

Njarðvík hefur 17 stig í 1. sæti deildarinnar, jafn mörg og Magni en betri markatölu, en Vestri 13 stig í 3. sæti, jafn mörg og Huginn sem vann Völsung í gær, 2:0.

Á Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum vann Afturelding 3:0 sigur á Hetti. Kristófer Örn Jónsson skoraði í sitt hvorum hálfleiknum fyrir Aftueldingu sem bætti svo við þriðja markinu þremur mínútum fyrir leiksleik eftir sjálfsmark frá Hattarmönnum.

Afturelding hefur 12 stig í 5. sæti, jafn mörg og Víðir sem gerði jafntefli við Tindastól í gær.

Höttur hefur 9 stig og er fjórum stigum fyrir ofan Fjarðabyggð sem er í fallsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert