„Það kemur aldrei í ljós“

Ólafur Jóhannesson þjálfari Vals.
Ólafur Jóhannesson þjálfari Vals. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég er ánægður að fá eitt stig, við vorum í basli hérna,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, eftir 1:1 jafntefli gegn Fjölni í 9. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu.

Fjölnismenn eru í botnbaráttunni en þeir mættu grimmir til leiks gegn toppliði Vals og komust yfir á 16. mínútu með marki frá Birni Snæ Ingasyni.

„Ég var ekki ánægður með liðið mitt, mér fannst við ekki tilbúnir í dag. Það var ekki nógu mikil ákefð í leik okkar.“ Er Evrópu ævintýrið að trufla leikmennina? „Nei, ég hef enga trú á því,“ sagði Ólafur.

Dion Acoff, leikmaður Vals, vildi fá vítaspyrnu þegar honum fannst brotið á sér í fyrri hálfleik. Þremur mínútum síðar skoraði Fjölnir markið sitt, hvað fannst Óla um það?

„Ég sá það ekki nógu vel, ég ætla bara rétt að vona, Péturs vegna, að það hafi ekki verið víti. Pétur er góður dómari,“ sagði Ólafur.

Valsmenn fengu hinsvegar vítaspyrnu þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka þegar Sigurður Egill Lárusson féll í viðskiptum við Marcus Solberg. Sigurður steig sjálfur á punktinn, skoraði af öryggi og tryggði Valsmönnum stig.

„Fór hann ekki aftan í bakið á honum? Mér sýndist það og ef hann gerði það, þá er það víti,“ sagði Ólafur.

Valsmanna bíður erfitt verkefni en á morgun ferðast liðið til Lettlands áður en það mætir FK Ventspils í undankeppni Evrópudeildarinnar.

„Við förum annað kvöld til Lettlands og verðum þar í einhverja daga. Þetta er eitt það skemmtilegasta sem fótboltamenn gera, að taka þátt í Evrópukeppni,“ sagði Ólafur.

Telur Óli að liðið sé betur undirbúið til að taka þátt í Evrópukeppninni en í fyrra?

„Þetta er ekki spurning um undirbúning liðsins, heldur á móti hverjum þú lendir. Í fyrra lentum við á móti Bröndby sem enginn átti séns í en það gætu verið meiri möguleikar í ár heldur en í fyrra,“ sagði Ólafur.

Patrick Pedersen mun ganga til liðs við Val þegar félagaskiptaglugginn opnar 15. júlí en hann varð markakóngur Pepsi-deildarinnar með Val sumarið 2015. Valsmenn fengu aragrúa af færum en illa gekk að skora, hefði breytt einhverju að hafa Pedersen í leik sem þessum?

„Það kemur aldrei í ljós,“ sagði Ólafur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert