Bjartsýnn eftir ferð í Garðabæinn

Stjörnumenn eru hættulegir í hornspyrnum og löngum innköstum, segir stjóri …
Stjörnumenn eru hættulegir í hornspyrnum og löngum innköstum, segir stjóri Shamrock Rovers. mbl.is/Árni Sæberg

Stephen Bradley, knattspyrnustjóri írska félagsins Shamrock Rovers, gerði sér ferð til Íslands um helgina til að sjá Stjörnuna spila við ÍA í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Rovers og Stjarnan mætast í forkeppni Evrópudeildarinnar á fimmtudag.

„Ef að við spilum samkvæmt okkar getu þá eigum við góða möguleika,“ sagði Bradley við The Herald.

„Stjarnan er gott lið, mjög sterkt í föstum leikatriðum, og þetta ætti að verða jafnt því liðið er í svipuðum gæðaflokki og við. En ef við spilum af okkar getu þá getum við unnið einvígið í tveimur leikjum,“ sagði Bradley.

Stjarnan og ÍA gerðu 2:2-jafntefli í leiknum á laugardag og aðeins 680 manns mættu á völlinn.

„Það var gott að sjá nákvæmlega hvernig þetta verður. Þetta er lítill leikvangur og bara ein stúka. Ég get komið öllum upplýsingum núna til leikmannanna,“ sagði Bradley.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert