Einn Daninn á förum frá Val

Ólafur Jóhannesson hefur haft lítil not fyrir Nicolaj Köhlert í …
Ólafur Jóhannesson hefur haft lítil not fyrir Nicolaj Köhlert í sumar og miðjumaðurinn virðist vera á leið heim til Danmerkur. mbl.is/Ófeigur

Danski miðjumaðurinn Nicolaj Köhlert hefur engan veginn náð að stimpla sig inn hjá toppliði Vals í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í sumar og virðist vera á förum frá félaginu.

Köhlert hefur aðeins komið við sögu í þremur deildarleikjum á tímabilinu og samtals leikið 27 mínútur. Þessi 24 ára gamli leikmaður vill yfirgefa Val:

„Þetta hefur ekki farið eins og ég vonaðist til. Mér hefur ekki liðið vel, hvorki innan né utan vallar. Þar að auki glímdi ég við smávægileg meiðsli í byrjun tímabils. Það spila fleiri hlutir inn í,“ sagði Köhlert við bold.dk, en hann virðist vera á leið til Danmerkur.

„Danmörk er svo sannarlega inni í myndinni. Nú sé ég til hvað gerist og vonast til að geta sýnt hvað ég get. Ég hef fengið leyfi til að fara til reynslu hjá öðru liði, svo það er planið núna,“ sagði Köhlert sem horfir til dönsku 1. deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert