Gott að geta komið honum á óvart

Alex Freyr Hilmarsson í baráttu við Eric Kwakwa, leikmann Víkings …
Alex Freyr Hilmarsson í baráttu við Eric Kwakwa, leikmann Víkings Ó., í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alex Freyr Hilmarsson, sóknartengiliður Víkings í Reykjavík, var að vonum sáttur eftir að hafa skorað bæði mörkin í sigri liðsins á Víkingi frá Ólafsvík, 2:0, í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í Fossvoginum í kvöld.

„Þetta var erfitt, eins og allir leikir, en ógeðslega gott að fá þrjú stig og klárlega gott að vera komnir með fimm leiki í röð án taps. Ekki síður að vera loksins með „hreint lak“, það er í fyrsta skipti sem það tekst í sumar,“ sagði Alex Freyr við mbl.is eftir leikinn.

„Ólafsvíkingarnir eru fastir fyrir, þeir eru með fínt lið sem er erfitt að brjóta niður en það var mikilvægt að ná að skora strax í seinni hálfleiknum,“ sagði Alex en hann kom heimamönnum yfir með skoti beint úr aukaspyrnu á 50. mínútu.

Eflaust töldu margir að Ívar Örn Jónsson myndi skjóta en þeir félagar stóðu báðir yfir boltanum. „Þetta var ekki fyrirframákveðið, við horfðum á hvernig markvörðurinn stóð og hann hefur kannski búist við skoti frá Ívari, þannig að það var gott að geta komið honum á óvart. Ég held að boltinn hafi breytt aðeins stefnu af varnarmanni, alla vega töluðu strákarnir um það inni í klefa, en hann fór inn og það var aðalmálið.“

Alex sagði að seinna markið á 84. mínútu hefði verið nauðsynlegt en Víkingar R. voru búnir að þétta betur sitt lið með skiptingum og voru einmitt búnir að taka alla þrjá sóknarmennina af velli, þann síðasta andartökum áður. „Það kom aðeins meiri ró í okkar leik eftir þetta mark. Ég fann mér svæði á milli varnarmannanna, þeir voru ekki alveg tilbúnir eftir innáskiptinguna, og Ívar gaf beint á mig úr aukaspyrnunni,“ sagði Alex sem slapp óvænt einn gegn markmanni Ólsara og skoraði.

Þrátt fyrir gott gengi í síðustu leikjum, fimm í röð án taps eftir að Logi Ólafsson tók við liðinu, vildi Alex ekki velta sér mikið upp úr stöðu þess í deildinni. „Nei, það þýðir ekkert annað en að horfa bara á næsta leik, og næst er það bikarleikur,“ sagði Alex Freyr Hilmarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert