Náðum varla að tengja þrjár sendingar

Óli Stefán Flóventsson.
Óli Stefán Flóventsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur, var sáttur við stigið sem liðið hans fékk gegn Breiðabliki á útivelli í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Markalaust jafntefli varð niðurstaðan, þrátt fyrir að bæði lið hafi skapað sér fín færi. Óli var sérstaklega sáttur við varnarleik sinna manna í kvöld. 

„Ég er ánægður með þetta stig, við þurftum að kafa djúpt og verja stigið sem við byrjuðum með. Stundum eru leikir þannig og sérstaklega í svona sterkri deild. Við áttum ekki okkar besta dag í sókninni og við þurftum að halda skipulagi í vörninni í staðinn.“

„Mig langar að hrósa allri vinnslunni í vörninni í dag. Það var það sem vann þetta stig fyrir okkur. Blikarnir voru mjög góðir í dag og þeir eiga hrós skilið, en þeir komast ekki í gegnum línuna á hættulegasta svæðinu hjá okkur, í gegnum miðjuna. Við lokuðum því svæði vel og þvinguðum þá út í breidd og þannig er auðveldara að verjast liði eins og Breiðabliki.“

Eins og áður segir var Óli sáttur við varnarleik sinna manna, en hann var ekki eins sáttur við sóknina. 

„Við náðum varla að tengja saman þrjár sendingar, stundum er það svoleiðis og þess vegna þurftum við að verja þetta stig. Það má samt ekki gleyma því að við fáum mögulega þrjú bestu færi leiksins, við hefðum getað stolið sigri, en stundum lenda menn á svona dögum, þar sem við náum ekki fram okkar takti.“

Andri Rúnar Bjarnason þurfti að fara meiddur af velli, eins og Hákon Ívar Ólafsson. 

„Hann var stífur í vikunni og þetta versnaði eftir því sem á leið. Hann var tæpur í hálfleik en hann lagði rúmlega 80 mínútur á sig í kvöld og við erum þakklátir fyrir það. Ég vona að þetta sé ekki alvarlegt. Við vorum með fimm mjög góða leikmenn fyrir utan hóp í dag. Maður er að púsla saman erfiðu verkefni. Strákar sem fáir þekktu í byrjun eru að koma inn á og láta vita af sér,“ sagði Óli Stefán. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert