Auðvitað erum við svekktar

Lillý Rut Hlynsdóttir.
Lillý Rut Hlynsdóttir. mbl.is/Golli

„Þetta var mjög jafn leikur,“ sagði Lillý Rut Hlynsdóttir, varnarmaður Þórs/KA, í samtali við mbl.is eftir 1:1 jafntefli liðsins við Val í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Þór/KA hafði unnið alla níu leiki sína í deildinni fram að leiknum í kvöld.

„Það er auðvitað mjög leiðinlegt að tapa stigum því við stefnum á að taka öll, en fyrir fram hefði bara verið gott að taka jafntefli hérna á Hlíðarenda. En auðvitað erum við svekktar,“ sagði Lillý.

Þór/KA tapaði í átta liða úrslitum bikarsins gegn Stjörnunni síðasta föstudagskvöld eftir að hafa unnið alla leiki fram að því í deild og bikar. En var erfitt að gíra sig upp eftir fyrsta tapið?

„Alls ekki. Við vorum staðráðnar í að rífa okkur upp og klára deildina. Við ætluðum okkur að fá þrjú stig hérna í dag eins og í öllum öðrum leikjum. Ég er mjög sátt við varnarleikinn hjá öllu liðinu og fannst við líka gera vel þegar við fengum færi,“ sagði Lillý.

Næsti leikur er heldur ekkert slor hjá Þór/KA þegar liðið heimsækir Breiðablik sem er í öðru sæti deildarinnar.

„Þetta er alvöru prógram hjá okkur núna en þetta eru samt bara eins og allir aðrir leikir, það skiptir engu máli á móti hverjum við erum að spila,“ sagði Lillý Rut Hlynsdóttir í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert