Breiðablik fór illa með FH

Blikinn Fanndís Friðriksdóttir og Erna Guðrún Magnúsdóttir úr FH í …
Blikinn Fanndís Friðriksdóttir og Erna Guðrún Magnúsdóttir úr FH í leiknum í kvöld. mbl.is/Hanna

FH tók á móti Breiðabliki í 10. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í Kaplakrika í kvöld. FH hafði tapað síðustu tveimur leikjum sínum en Breiðablik unnið síðustu tvo fyrir leik kvöldsins. Leiknum lauk með afar sannfærandi 5:0 stórsigri Breiðabliks.

Breiðablik má ekki við því að misstíga sig í svona leikjum ef liðið ætlar að saxa á forskot Þór/KA á toppi deildarinnar en strax á 2. mínútu fékk FH vítaspyrnu. Brotið var á Caroline Murray inn í vítateig og Rannveig Bjarnadóttir steig á punktinn. Spyrna hennar var hinsvegar slök og Sonný Lára Þráinsdóttir varði vel í markinu.

Það var svo Breiðablik sem skoraði og komst yfir á 18. mínútu eftir góða sókn. Svava Rós Guðmundsdóttir átti fínan sprett upp hægri kantinn áður en hún lagði boltann út í vítateig á Berglindi Björg Þorvaldsdóttur og hún skoraði með föstu skoti upp í fjærhornið. Baráttan var mikil í fyrri hálfleik og fleiri urðu mörkin ekki.

Breiðablik gekk hinsvegar á lagið í þeim síðari og réði lögum og lofum. FH átti í erfiðleikum með að halda boltanum og annað mark gestanna lá hreinlega í loftinu allan hálfleikinn þangað til á 71. mínútu þegar Berglind Björg skoraði það eftir góðan undirbúning frá Fanndísi Friðriksdóttur.

Staðan var svo 3:0 á 75. mínútu eftir ansi skrautlega sókn. Fyrst skaut Rakel Hönnudóttir í stöngina og svo Svava Rós í þverslá. FH tókst hinsvegar ekki að hreinsa boltann og hann endaði hjá Fanndísi sem skoraði glæsilegt mark, sláin og inn.

Rakel Hönnudóttir skoraði svo af stuttu færi á 84. mínútu áður en Guðrún Arnardóttir innsiglaði 5:0 stórsigur Breiðabliks eftir hornspyrnu en liðið nú topplið Þór/KA sem missteig sig í kvöld. Breiðablik er nú með 24 stig, áfram í 2. sæti en munurinn er fjögur stig og liðið mætir einmitt Þór/KA í sannkölluðum toppslag í Kópavoginum í næstu umferð. FH er áfram í 6. sæti með 12 stig.

FH 0:5 Breiðablik opna loka
90. mín. Sandra Sif Magnúsdóttir (Breiðablik) á skot framhjá Reynir skot af löngu færi og boltinn fer hátt yfir markið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert