Missti af útskrift en lagði upp þrjú mörk í staðinn

Arnór Sveinn Aðalsteinsson.
Arnór Sveinn Aðalsteinsson. mbl.is/Eggert

Laugardagurinn 24. júní 2017 verður sennilega lengi í minnum hafður hjá Arnóri Sveini Aðalsteinssyni, leikmanni KR. Hann útskrifaðist þá með BA-próf í heimspeki frá Háskóla Íslands en var vant við látinn með KR-ingum á Akureyri þar sem hann lagði upp öll mörk liðsins í 3:2-sigri á KA. Arnór Sveinn er leikmaður 9. umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu að mati Morgunblaðsins.

Arnór Sveinn var ekki sérstaklega svekktur að missa af útskriftarathöfninni þó að áfanginn sé stór. „Nei, það var eiginlega bara töluvert skemmtilegra að vera inni á vellinum og taka leikinn svona. Ég held bara smávægilega veislu um næstu helgi,“ segir Arnór í léttum dúr, en þrjár fyrirgjafir hans gegn KA skiluðu marki.

„Það er fyndið hvernig þetta dettur stundum. Hver einasta fyrirgjöf fór á hausinn á Kennie [Chopart], Tobiasi [Thomsen] og Skara [Óskari Erni Haukssyni]. Það var ótrúlega gaman að sjá það. Við höfum verið að spila vel að okkar mati þótt það hafi ekki gengið nógu vel að halda hreinu eða skora úr færum, en í þessum leik small þetta,“ segir Arnór Sveinn og bætir við að heimspekimenntunin komi að góðum notum í fótboltanum og ekki síst andlega.

Viðtalið í heild og uppgjör Morgunblaðsins eftir 9. umferðina má sjá í íþróttablaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert