Þróttarkonur á toppinn

Michaela Mansfield skoraði sigurmarkið fyrir Þrótt.
Michaela Mansfield skoraði sigurmarkið fyrir Þrótt. Ljósmynd/Facebook-síða Þróttar

Þróttur úr Reykjavík komst í gærkvöld á topp 1. deildar kvenna í knattspyrnu með því að sigra Keflavík, 1:0, á útivelli.

Michaela Mansfield skoraði sigurmark Þróttara á lokamínútu fyrri hálfleiks. Þetta var fjórði sigur þeirra í röð og Þróttur er nú með 18 stig eftir átta leiki. Keflavík er nú í fimmta sætinu með 11 stig.

HK/Víkingur er með 17 stig í öðru sæti og á leik til góða á Þrótt eftir jafntefli gegn Hömrunum í Boganum á Akureyri í fyrrakvöld, 1:1. Karólína Jack kom HK/Víkingi yfir en Rakel Óla Sigmundsdóttir jafnaði fyrir Hamrana snemma í seinni hálfleik. Hamrarnir eru í 6. sæti með 10 stig.

Sindri er í fjórða sæti með 12 stig, einu á eftir Selfyssingum, eftir heimasigur gegn Tindastóli, 3:2. Chestley Strother skoraði tvö mörk fyrir Sindra og Shameeka Fishley eitt en Kolbrún Ósk Hjaltadóttir og Madison Cannon gerðu mörk Tindastóls, sem hefur enn ekki náð í stig eftir sjö leiki.

ÍA vann Víking frá Ólafsvík, 4:2, í Vesturlandsslag á Akranesi. Ruth Þórðar gerði tvö marka ÍA, Bergdís Fanney Einarsdóttir og Maren Leósdóttir eitt hvor, en Unnbjörg Jóna Ómarsdóttir og Regína Sigurjónsdóttir skoruðu fyrir Ólafsvíkinga. ÍA er með 10 stig í 7. sæti en Víkingur Ó. er með 4 stig í níunda og næstneðsta sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert