„Helgi að gera góða hluti í Lautinni“

Heimir Guðjónsson.
Heimir Guðjónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við búum okkur undir mjög erfiðan leik á móti Fylkismönnum,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari Íslandsmeistaranna sem sækja Fylkismenn heim í fyrsta leik 8-liða úrslitanna í Borgunarbikarnum í knattspyrnu í kvöld.

„Við erum að fara mæta besta liðinu í Inkasso-deildinni í dag og liði sem sló Breiðablik út úr bikarnum. Ég sá Fylkismennina í sigurleik þeirra á móti Selfyssingum um síðustu helgi og þeir litu virkilega vel út.

Það er alveg á hreinu að Helgi Sigurðsson er að gera virkilega góða hluti í Lautinni. Fylkisliðið er sterkt og vel skipulagt og við verðum svo sannarlega að hafa fyrir hlutunum á móti þeim ef við ætlum okkar að komast áfram,“ sagði Heimir Guðjónsson við mbl.is.

„Við þurfum að eiga góðan leik til þess að slá Fylkismennina út og reyna að byggja ofan á það sem við gerðum í Eyjum um síðustu helgi þó svo að það hafi ekki verið fallegur fótboltaleikur. Skipulagið var gott hjá okkur, sérstaklega í seinni hálfleik þar sem við spiluðum sem lið.“

Flautað verður til leiks á Flórídanavellinum í Árbæ klukkan 19.15.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert