Fylkir eykur forskotið - HK og Haukar unnu

HK-ingar höfðu betur gegn Leikni R. í Breiðholti.
HK-ingar höfðu betur gegn Leikni R. í Breiðholti. mbl.is/Árni Sæberg

Fylkismenn styrktu enn frekar stöðu sína á toppi 1. deildar karla í knattspyrnu, Inkasso-deildarinnar, með því að sigra Gróttu, 4:0, í Árbænum í kvöld.

Fylkir er þar með kominn með 29 stig og er fimm stigum á undan Keflavík og Þrótti sem eiga hinsvegar leik til góða. Grótta situr áfram í næstneðsta  sætinu með 8 stig.

Leikurinn var markalaus þar til um miðjan síðari hálfleik þegar miðvörðurinn Ásgeir Eyþórsson kom Fylki yfir. Valdimar Þór Ingimundarson, sem kom inná sem varamaður, bætti við tveimur mörkum á þriggja mínútna kafla og Oddur Ingi Guðmundsson innsiglaði sigurinn með fjórða markinu.

Haukar lögðu Fram, 3:2, á Ásvöllum og það gengur því enn ekkert hjá Frömurum undir stjórn Pedro Hipólító en þeir hafa ekki unnið leik síðan hann tók við af Ásmundi Arnarssyni. Ivan Bubalo skoraði eina mark fyrri hálfleiks fyrir Fram en Sindri Scheving, Arnar Aðalgeirsson og Björgvin Stefánsson komu Haukum í 3:1 í seinni hálfleiknum. Guðmundur Magnússon minnkaði muninn undir lokin fyrir Framara.

Haukar eru þá komnir með 20 stig og í fjórða sæti deildarinnar en Framarar eru dottnir niður í níunda sætið með 15 stig.

Bjarni Gunnarsson tryggði HK sigur á Leikni R., 2:1, í Breiðholtinu með skallamarki í uppbótartíma eftir fyrirgjöf Harðar Inga Gunnarssonar. Viktor Helgi Benediktsson hafði komið HK yfir í fyrri hálfleiknum en Skúli E. Sigurz jafnaði fyrir Leikni snemma í seinni hálfleik. Bæði mörkin eftir hornspyrnur.

HK lyfti sér þar með upp í sjöunda sætið með 18 stig og fór uppfyrir Leikni sem er með 17 stig í áttunda sætinu.

Upplýsingar um mörk í tveimur fyrri leikjunum eru af urslit.net og fotbolti.net.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert