Getum borið höfuðið hátt

Andri Adolpsson átti mjög góðan leik með Val í Slóveníu …
Andri Adolpsson átti mjög góðan leik með Val í Slóveníu í kvöld. mbl.is/Golli

„Ég held að við getum borið höfuðið hátt eftir þessa frammistöðu. Vissulega er súrt að við séum úr leik en frammistaða liðsins í kvöld var virkilega góð,“ sagði Sigurbjörn Hreiðarsson, annar af þjálfum Vals, við mbl.is eftir tapið gegn slóvenska liðinu Domzale, 3:2, í síðari viðureign liðanna í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í Slóveníu í kvöld.

„Mér fannst við vera með góð tök á leiknum þar til við fengum á okkur markið úr aukaspyrnunni og rothöggið kom svo tveimur mínútum síðar. Fram að þessu gengu hlutirnir eins og við ætluðum okkur. Fyrri hálfleikurinn hjá okkur var frábær en við vorum kannski klaufar eins og í leiknum heima. Það varð smá einbeitingarleysi sem gerði vart við sig hjá okkur og það reyndist dýrt,“ sagði Sigurbjörn.

Valsmenn voru 2:1 yfir í hálfleik en Slóvenarnir skoruðu tvö mörk með tveggja mínútna millibili og unnu einvígið samanlagt, 5:3.

„Við fengum færi í stöðunni 2:1 fyrir okkur en við vissum að þeir myndu gera áhlaup sem þeir og gerðu. Þetta er reynslumikið lið og með góða leikmenn innanborðs. En heilt yfir vorum við ánægðir með leikmennina sem tóku þátt í þessu verkefni. Það var mikill hiti á meðan leiknum stóð og auðvitað hafði hann áhrif þegar á leikinn leið,“ sagði Sigurbjörn.

Ákváðum að taka engar áhættu með ákveðna menn

Liðsuppstilling Valsmanna vakti athygli en fastamenn eins og fyrirliðinn Haukur Páll Sigurðsson, Bjarni Ólafur Eiríksson, Sigurður Egill Lárusson, Arnar Sveinn Geirsson og Dion Acoff hófu allir leikinn á bekknum. Spurður út í þessa ákvörðun sagði Sigurbjörn:

„Það er búið að vera álag á liðinu og við ákváðum að taka engar áhættu með ákveðna menn. Við erum með stóran og góðan hóp og það komu menn inn í liðið sem stóðu sig frábærlega og lögðu sig alla fram. Þeir leikmenn sem hvíldu í kvöld fengu kærkomna hvíld. Það voru sumir sem skiluðu frábærri frammistöðu og þar get ég nefnt mann eins og Andra Adolphsson.“

Valsmenn geta nú einbeitt sér alfarið af Pepsi-deildinni þar sem þeir eru úr leik í Evrópukeppninni og bikarkeppninni. Valur trónir á toppi deildarinnar og sækir Víking Ólafsvík heim á sunnudaginn.

„Nú munum við leggja allt í sölurnar hvað deildina varðar. Fram undan er mikilvægur leikur gegn mjög vaxandi liði Víkings Ólafsvíkur sem hefur verið á góðu skriði síðustu vikurnar. Við munum undirbúa okkur undir mjög erfiðan leik í Ólafsvík,“ sagði Sigurbjörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert