Oliver til Noregs

Oliver Sigurjónsson.
Oliver Sigurjónsson. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik og norska B-deildarliðið Bodø/Glimt hafa náð samkomulagi um kaup norska liðsins á miðjumanninum Oliver Sigurjónssyni. Þetta kemur fram á blikar.is.

Samningur félaganna er með hefðbundnum fyrirvörum í samningum sem þessum en gangi allt eftir má búast við að Oliver verði orðinn leikmaður FK Bodø/Glimt á næstu dögum, segir á blikar.is.

Oliver er 22 ára gamall sem ungur að árum reyndi fyrir sér í atvinnumennsku hjá danska liðinu AGF. Hann hefur aðeins komið við sögu í þremur leikjum Breiðabliks í Pepsi-deildinni en hann varð fyrir meiðslum í leiknum gegn KA í 1. umferðinni og er nýlega búinn að jafna sig af þeim meiðslum.

Eftir 15 umferðir í norsku B-deildinni er Bodø/Glimt með örugga forystu. Liðið hefur 35 stig en Ranheim er í öðru sæti með 28 stig. Oliver verður fjórði Íslendingurinn til að spila með Bodø/Glimt en landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson lék með liðinu 2016 og þeir Kristján Jónsson og Anthony Karl Gregory léku með því árið 1994.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert