Þetta var mjög sérstakt fyrir mig

Viðar Örn Kjartansson fagnar fyrra marki Maccabi Tel Aviv í …
Viðar Örn Kjartansson fagnar fyrra marki Maccabi Tel Aviv í kvöld með félögum sínum. mbl.is/Árni Sæberg

„Það var rosalega gaman, maður heyrði vel í þeim, þetta var mjög sérstakt fyrir mig og liðsfélögum mínum fannst það æðislegt. Ég er mjög þakklátur fyrir þetta," sagði Viðar Örn Kjartansson framherji Maccabi Tel Aviv, um þá íslensku stuðningsmenn sem studdu hann og liðsfélaga hans í 2:0-sigrinum á KR í annarri umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í Vesturbænum í kvöld. Um 50 Íslendingar sungu hátt og snjallt um Viðar allan leikinn. 

Hvernig fannst Viðari að koma í Vesturbæinn og spila við KR í íslensku sumarveðri? 

„Þetta var fínt fyrir mig, ég er búinn að vera að æfa og spila í 35 gráðum. Mér hefur alltaf fundist þetta vera besta veðrið til að spila fótbolta, þetta var mjög fínt og ég held strákunum í liðinu hafi fundist það líka."

Viðar var nokkuð sáttur við sig og liðið í heild sinni í leikjunum tveimur. Viðar skoraði í fyrri leiknum og lagði upp fyrsta mark leiksins í kvöld. 

„Auðvitað getur maður gert betur, en þetta er rétt að byrja hjá okkur. Þetta er leikur númer fjögur á tímabilinu. Ég er að vinna í því að komast í eins gott stand og ég get. Ég er að leggja hart að mér, þetta var fínt hjá okkur í þessu einvígi. Við fengum fullt af tækifærum í dag eftir að hafa ekki verið eins góðir í fyrri leiknum. Við verðum samt sem áður að spila betur til að komast áfram úr næstu umferð."

Hann hrósaði KR-ingum í leikslok. 

„Mér fannst þeir mjög flottir. Þeir eru líkamlega sterkir og það er kraftur í þeim. Þeir vörðust mjög vel og það var erfitt að skapa opin tækifæri, þó það hafi verið fleiri tækifæri í dag en úti. Þeir spiluðu mjög vel í Ísrael enda með fullt af góðum einstaklingum. Við vissum að þetta yrði erfitt og þeir eiga hrós skilið."

Viðar segir það mjög mikilvægt að liðið vinni gríska liðið Panionios í næstu umferð og tryggi sér sæti í riðlakeppninni. 

„Við erum að fara að mæta grísku liði og þetta verður erfiðara og erfiðara. Planið er að komast í riðlakeppnina. Við verðum alls ekki sáttir ef það gengur ekki eftir þar sem það þótti stórslys að komast ekki upp úr riðlinum í fyrra, við gerðum mörg mistök þar."

Ísraelska deildin byrjar í ágúst. Hvernig líst Viðari á sitt annað tímabil í Ísrael? 

„Það er rosalega pressa í þessu félagi, stuðningsmennirnir vilja að þú vinnir hvern einasta leik og helst með ágætum mun. Við þurfum að fara að rífa okkur í gang. Hapoel Beer Sheva eru mjög gott lið og við þurfum að hætta að misstíga okkur á móti minni liðum eins og við höfum verið að gera. Þetta er sterk deild og þú getur tapað á móti öllum, við þurfum að fara að rífa okkur upp og fara að vinna þessa deild," sagði Viðar að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert