„Okkur og deildinni er ekki sýnd virðing“

Karen Nóadóttir, fyrir miðri mynd.
Karen Nóadóttir, fyrir miðri mynd. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Við höfum engar upphæðir fengið en það er fullt af einstaklingum búnir að bjóða sig fram. Ég hef fengið skilaboð úr ýmsum áttum sem ég mun klárlega nýta mér. Ég held að þetta stefni í að við verðum með fullan 18 manna hóp,“ sagði Karen Nóadóttir, þjálfari 1. deildarliðs Hamranna í knattspyrnu kvenna, en liðið hefur átt í miklum vandræðum með fylla upp í sitt lið vegna leiks liðsins gegn Sindra á laugardag.

Öll önnur kvennalið á landinu fá frí þessa helgi og þannig er mál með vexti að fjölmargir leikmenn Hamranna eru í æfingaferð í Hollandi auk þess sem margir þeirra eru að fylgjast með íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu sem leikur sinn 2. leik í riðlakeppninni gegn Sviss.

Karen og aðrir forráðamenn Hamranna tóku því til öþrifaráða og buðu upp sæti í liðinu en félagaskiptaglugginn er opinn og því er sá möguleiki fyrir hendi. 

Ömurlegt að lenda í einhverju svona

„Eftir að við náðum að fá leiknum seinkað til kl. 19 þá náðum við inn þremur leikmönnum sem hefðu annars ekki komist. Þá vorum við komin með 13 leikmenn. Það hafa svo fimm leikmenn og gott betur en það boðið fram krafta sína,“ sagði Karen og segir kaldhæðnislega að hún sé komin með „lúxus“-vandamál að þurfa að velja.

Aðspurð hvort þessir leikmenn séu í formi segir Karen hreint og beint: „Nei, nei. Þær eru í misgóðu formi. Ég hef fengið skilaboð frá stelpum sem hafa fyrir mörgum árum verið að spila. Einhverjar tóku þátt í pollamótinu sem fór fram fyrir tveimur vikum á Akureyri,“ sagði Karen aðspurð um nýju leikmennina.

„Svo sagðist ein geta verið á bekknum upp á skemmtanagildið,“ sagði Karen létt en Hamrakonur hafa ákveðið að snúa annars þessu vandamáli upp í hálfgert grín enda finnist henni málið hlægilegt.

„En um leið og leikurinn byrjar verður þetta fúlasta alvara,“ sagði Karen.

„Það er búið að vera mikil reiði og þetta er búið að fá mig til að grenja. Ég sagði bara leikmönnum mínum að taka þetta á húmornum og hlæja bara að þessu. Þetta er svo út í hött það er ekki hægt að komast öðruvísi í gegnum þetta en með því að hlæja,“ sagði Karen en hún lítur svo á að Sindri vilji einfaldlega fara norður og taka þrjú stig gegn lemstruðu liði.

„Okkur og deildinni er ekki sýnd virðing og þess vegna ætlum við að slá þessu upp í smá grín og taka þessu eins og KSÍ er að gera þetta. En við förum inn í þetta mót í fullri alvöru og það er ömurlegt að lenda í einhverju svona,“ sagði Karen.

Sindrakonur ekki óliðlegar

Karen segist fyrst hafa leitað lausna við málinu í júní en ekkert hafi gengið. Að KSÍ hafi sagt að Hamrarnir hafi þurft að leysa vandamálið við Sindra. Það hafi hins vegar ekki gengið. KSÍ hafi hins vegar staðið fast á sinni afstöðu að liðin sjálf þyrftu að leysa vandamálið. Það hefur ekki gengið.

Í samtali við mbl.is segir Gísli Már Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri Sindra, að það hafi einfaldlega ekki hentað Sindra að breyta um dagsetningu og að liðið hafi komið til móts við Hamrana um að spila kl. 19 sem gæti orðið til þess að liðsmenn verði komnir til síns heima um miðja næstu nótt. 

„Þær vildu breyta leik eins og gerist margoft yfir sumarið. Í þessu tilviki gekk það ekki upp og þar við situr,“ sagði Gísli Már við mbl.is og segir að Sindrakonur hafi að sjálfsögðu tekið málið til skoðunar.

„Þetta hefur ekkert með það að gera að við séum óliðleg. Við erum að breyta leikjum alltaf þegar möguleiki er á, allir sáttir og ekkert vesen,“ sagði Gísli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert