Þetta var engin heppni

Viktor Jónsson í baráttunni í kvöld.
Viktor Jónsson í baráttunni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þegar við vorum 1:0 undir þá leit þetta auðvitað ekki of vel út en maður heldur alltaf í vonina," sagði Viktor Jónsson, hetja Þróttara, eftir 2:1 sigur þeirra á ÍR í 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld. Viktor skoraði tvö mörk í uppbótartíma og tryggði Þrótti ótrúlegan sigur. 

„Manni leið ekki of vel en þetta er ekki búið fyrr en þetta er búið og við settum tvö í uppbótartíma og kláruðum leikinn og við það erum við sáttir."

Viktor var ekki sáttur við frammistöðuna, þrátt fyrir sigurinn en hann var að sjálfsögðu ánægður með sín mörk. 

„Þetta var arfaslök frammistaða, við eigum að gera mikið betur á heimavelli og með Köttarana í stúkunni. Þetta er ekki spretthlaup, þetta er maraþon."

„Maður verður að nýta það sem býðst. Ég átti skalla í stöng í seinni hálfleik og svo datt þetta fyrir mig alveg undir lokin og sem betur fer nýtti ég það."

„Þetta var karakterssigur og sumir myndu kalla þetta meistaraheppni en það var engin heppni í þessu, við kláruðum þetta bara."

Þróttur mætir Þór í næsta leik og segir Viktor Þrótt verða að spila betur í þeim leik. 

„Það er erfiður útivöllur og Þórsararnir eru búnir að vera góðir undanfarið. Það hefur verið stígandi í þeirra leik og við þurfum að mæta sterkari í þann leik."

Viktor segir baráttuna um að komast upp um deild á milli Keflavíkur, Þróttar og Fylkis. 

„Þetta verður þriggja hesta kapphlaup. Við verðum að hugsa um okkur og klára okkar leiki og sjá hvernig staðan er í lok tímabils,“ sagði Viktor. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert