Höfum gengið í gegnum dýpri dali

Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA.
Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta eru að sjálfsögðu vonbrigði, einkum og sér í lagi þar sem við erum í þeirri stöðu að þurfa nauðsynlega á stigi eða stigum að halda. Þetta var kaflaskiptur leikur að mínu mati. Við vorum ekki nógu ákveðnir í okkar aðgerðum í fyrri hálfleik, en komum öflugir til leiks í seinni hálfleik og hefðum hæglega getað komið okkur inn í leikinn með marki á þeim góða kafla,“ sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, í samtali við mbl.is, eftir 2:0-tap liðsins gegn FH í 12. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag.

„Lið sem er í þeirri stöðu sem Skagaliðið er í þessa stundina skortir oft þá trú sem nauðsynlegt er að hafa til þess að reka smiðshöggið á aðgerðir sínar. Það vantaði herslumuninn að binda endahnútinn á góðar leikstöður sem við sköpuðum. Ég er gríðarlega ánægður með þann kraft sem við sýndum í upphafi seinni hálfleiks. Það hefði verið áhugavert að sjá hvað hefði gerst ef við hefðum nýtt þann góða kafla með marki,“ sagði Gunnlaugur enn fremur um  þróun leiksins.

„Það er verkefni okkar þjálfaranna að taka þá jákvæðu punkta sem voru í þessum leik og berja trú í leikmannahópinn. Þetta er langt í frá að vera búið, það eru tíu leikir eftir af deildinni og 30 stig í pottinum. Við höfum á þeim árum sem ég hef stýrt liðinu í efstu deild lent í dýpri dölum en þetta og höfum náð að krafla okkur upp úr því. Liðið er stútfullt af leikmönnum sem er annt um félagið og er viss um að við björgum okkur frá falli,“ sagði Gunnlaugur um framhaldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert