Mitt hlutverk er að skapa færi

Atli Guðnason lagði upp bæði mörk FH í sigri liðsins …
Atli Guðnason lagði upp bæði mörk FH í sigri liðsins gegn ÍA í dag. mbl.is/Golli

„Við spiluðum vel í þessum leik, unnum góðan sigur og innbyrtum mikilvæg þrjú stig eftir misjafnt gengi í síðustu deildarleikjum liðsins. Það er alltaf erfitt að spila við Skagamenn, þeir eru ávallt grimmir og veita harða mótspyrnu. Við vissum að þetta yrði barningur og það þyrfti að nýta það vel þegar pláss myndu skapast. Við gerðum það og skoruðum tvö góð mörk,“ sagði Atli Guðnason, í samtali við mbl,is, en hann lagði upp bæði mörk FH í 2:0-sigri liðsins gegn ÍA í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag.

„Við vorum staðráðnir í að snúa slæmu gengi liðsins á heimavelli á þessari leiktíð við og sýna það og sanna hvers megnugir við erum. Það tókst og við erum afar sáttir við það. Það er mitt hlutverk að koma mér í hættulegar stöður og skapa færi fyrir samherja. Það gekk upp að þessu sinni sem er frábært. Vonandi verður svo áframhald á því næstu leikjum “ sagði Atli hógvær um mikilvægi sitt í sigri FH í dag.

„Við fengum ferskar fætur inn á völlinn í dag og það sýndi sig í þessum leik hversu stóran og góðan leikamannahóp við höfum á að skipa. Guðmundur Karl [Guðmundsson] og Robbie Crawford komu vel inn í liðið að þessu sinni. Framundan er um það bil tveggja vikna pása í deildinni. Við erum að fara í virkilega erfiðan útileik í Slóveníu þar sem stefnan er að ná í hagstæð úrslit, sagði Atli enn fremur um leikinn og framhaldið hjá FH-liðinu.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert