Öruggt hjá KR gegn Víkingi R.

Halldór Smári Sigurðsson skallar boltann frá marki Víkings gegn KR …
Halldór Smári Sigurðsson skallar boltann frá marki Víkings gegn KR í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

KR vann Reykjavíkurslaginn gegn Víkingi í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í Fossvoginum í kvöld, 3:0. Danirnir Tobias Thomsen og André Bjerregaard skoruðu mörkin í fyrri hálfleik. KR fór upp í níunda sæti deildarinnar með sigrinum og eru þeir nú þremur stigum frá fallsæti. Víkingar féllu niður í sjöunda sæti.

KR var töluvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. Willum Þór Þórsson, þjálfari liðsins, stillti upp mjög sóknarsinnuðu liði sem Víkingarnir réðu illa við. Þrátt fyrir það var það Víkingur sem fyrsta færi leiksins. Alex Freyr Hilmarsson átti þá glæsilega stungusendingu á Erling Agnarsson sem var einn gegn Beiti Ólafssyni í marki KR, en Beitir varði mjög vel frá honum.

Eftir færið hjá Alex tóku KR-ingar öll völd á vellinum og það var sanngjarnt að Tobias Thomsen kom þeim yfir á 15. mínútu. Ívar Örn Jónsson átti þá skelfilega sendingu, beint á Danann, sem þakkaði fyrir sig með að skora af stuttu færi.

Tólf mínútum síðar tvöfaldaði André Bjerregaard forskot KR-inga, hann fékk þá stungusendingu frá Pálma Rafni Pálmasyni, lék á Róbert í markinu og kláraði úr mjög þröngu færi. Það reyndist síðasta mark fyrri hálfleiks, þrátt fyrir að KR-ingar hafi fengið færi til að bæta við marki.

Síðari hálfleikurinn var mun rólegri en sá fyrri. Víkingar reyndu hvað þeir gátu til að komast aftur inn í leikinn en það gekk mjög illa að skapa færi gegn góðu KR liði. KR-ingar virtust að sama skapir sáttir við stöðuna og lögðu takmarkaða orku í sóknarleikinn. Þeim tókst samt sem áður að bæta við þriðja markinu á 84. mínútu. Thomsen skoraði þá sitt annað mark er hann hamraði boltann í bláhornið utan teigs eftir að Víkingum hafði gengið illa að hreinsa boltann frá marki sínu. Ekki var meira skorað og sanngjarn sigur KR varð raunin. 

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is. 

Víkingur R. 0:3 KR opna loka
90. mín. KR fær hornspyrnu Það verða þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert