Loks vann Fram undir stjórn Hipó­lító

Ragnar Leósson skýtur að marki Fram í kvöld. Dino Gavric …
Ragnar Leósson skýtur að marki Fram í kvöld. Dino Gavric og Kristófer Reyes eru til varnar. mbl.is/Golli

Fram vann langþráðan 3:0 sigur á Leikni Reykjavík í 14. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í kvöld en liðið hafði tapað fjórum síðustu leikjum sínum.

Fram var ívið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en það þurfti vítaspyrnu á 45. mínútu til að brjóta ísinn. Helgi Guðjónsson, sem kom inn á sem varamaður snemma leiks, sendi boltann þá fyrir markið þar sem Halldór Kristinn Halldórsson braut á Guðmundi Magnússyni og var Jóhann Ingi Jónsson dómari í engum vafa, vítaspyrna dæmd. Ivan Bubalo steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi, hans sjöunda mark í deildinni í sumar.

Á 55. mínútu tvöfaldaði Helgi Guðjónsson forystu Fram með góðu föstu skoti í fjærhornið eftir að Leiknismönnum hafði mistekist að hreinsa boltann úr eigin markteig en varnarlína gestanna átti ekki sinn besta leik. Á 89. mínútu innsiglaði svo Axel Freyr Harðarson sigurinn þegar hann slapp í gegnum vörn Leiknis og skoraði með föstu skoti í gegnum klof Eyjólfs Tómassonar í markinu, 3:0.

Framarar voru meira með boltann í leiknum og unnu afar verðskuldaðan sigur en þetta eru fyrstu stig liðsins undir stjórn Pedro Hipólito sem tók við liðinu fyrir nokkrum vikum. Leiknismenn virtust hins vegar kraftlausir og mögulega farnir að huga að undanúrslitaleiknum í Borgunarbikarnum gegn FH um næstu helgi.

Með sigrinum fór Fram upp fyrir Leikni og er liðið nú í 7. sæti með 18 stig. Leiknismenn eru í því 9. með 17 stig.

Fram 3:0 Leiknir R. opna loka
90. mín. Sigurpáll Melberg Pálsson (Fram) fær gult spjald
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert