Litháískir bræður til Víkings í Ólafsvík

Eivinas Zagurskas.
Eivinas Zagurskas. Ljósmynd/Víkingur Ólafsvík

Víkingur í Ólafsvík hefur fengið liðsstyrk fyrir átökin í Pepsi-deild karla í knattspyrnu en tveir Litháar hafa bæst í leikmannahóp Ólafsvíkurliðsins.

Bræðurnir Eivinas Zagurskas og Gabrielius Zagurskas eru komnir með leikheimild með Víkingi Ólafsvík. Sá fyrrnefndi er kominn til landsins og verður væntanlega í leikmannahópi liðsins þegar það tekur á móti toppliði Vals í Pepsi-deildinni annað kvöld en sá síðarnefndi kemur til landsins á miðvikudaginn.

Eivinas er 27 ára gamall miðjumaður sem kemur frá norska C-deildarliðinu Egersund sem hann hefur leikið með undanfarin þrjú ár en Ólafur Örn Bjarnason þjálfar liðið. Gabrielius er 25 ára gamall varnarmaður. Hann kemur frá A-deildarliðinu Utenis í Litháen og hefur spilað fimmtán af sautján leikjum liðsins á þessu tímabili og skorað 2 mörk. Hann hefur leikið með því í A-deildinni undanfarin þrjú ár.

Víkingur í Ólafsvík hefur verið á góðu skriði síðustu vikurnar og hefur fengið tíu stig af 15 mögulegum og er í 10. sæti deildarinnar með 13 stig fyrir leikinn annað kvöld en kæmist í fimmta sætið með sigri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert