Breskur varnarmaður til Eyja

Eyjamenn eru í fallsæti eftir ósigur gegn Fjölni um síðustu …
Eyjamenn eru í fallsæti eftir ósigur gegn Fjölni um síðustu helgi. mbl.is/Árni Sæberg

Breski knattspyrnumaðurinn Brian Stuart McLean er genginn til liðs við Eyjamenn og hefur fengið leikheimild með þeim. Hann gæti þar með spilað bikarleikinn gegn Stjörnunni í Garðabæ á morgun en liðin mætast þar í undanúrslitum bikarkeppninnar.

McLean er 32 ára gamall miðvörður sem lék síðast með Hibernian. Hann er fæddur í Skotlandi og lék með U17 ára landsliði þjóðarinnar en spilaði síðan einn A-landsleik fyrir Norður-Írland árið 2006. Vegna mistaka í skráningu var hann úrskurðaður ólöglegur með norðurírska landsliðinu og hefur því ekki spilað með því aftur.

Hann hefur lengst af spilað með skoskum liðum, var á mála hjá Rangers í unglinga- og varaliðum en síðan með Motherwell, Falkirk, Dundee United og Ross County. Tímabilið 2011-12 lék hann með Preston í ensku C-deildinni. Árin 2015 og 2016 lék hann með liði Brunei í deildakeppninni í Singapúr og vann þar meistaratitil fyrra árið en sneri aftur til Skotlands í mars og var í röðum Hibernian til loka tímabilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert