Naumt tap FH í Slóveníu

Byrjunarlið FH á vellinum í Maribor í kvöld.
Byrjunarlið FH á vellinum í Maribor í kvöld. Ljósmynd/@fhingar

Íslandsmeistarar FH máttu þola 1:0 tap gegn slóvensku meisturunum í Maribor á útivelli í fyrri leik liðanna í 3. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Brasilíumaðurinn Marcos Tavares skoraði eina mark leiksins á 54. mínútu. 

Maribor hefur verið ógnarsterkt á heimavelli í Evrópukeppnum að undanförnu og gert jafntefli við lið eins og Chelsea og Sevilla á undanförnum árum. FH-ingar voru því sáttir við að staðan í leikhléi var markalaus, þar sem sem Maribor skapaði sér lítið. FH-ingar voru aftarlega á vellinum og freistuðu þess að beita skyndisóknum. Besta færi Maribor í hálfleiknum var skot Marwan Kabha af löngu færi sem hafnaði í þverslánni. Besta tilraun FH var skot Atla Guðnasonar af löngu færi sem fór framhjá. 

FH hélt áfram að liggja til baka í síðari hálfleik og á 54. mínútu skoraði Marcos Tavares með skalla af stuttu færi þegar enginn FH-ingur var nálægt honum. Eftir það náðu leikmenn Maribor meiri tökum á leiknum og sköpuðu þeir sér hættuleg færi, en Gunnar Nielsen og vörn FH stóðu það vel af sér og lauk leiknum því með 1:0 sigri Maribor. Fín úrslit fyrir FH, sem á enn raunhæfan möguleika á að komast áfram úr einvíginu. Íslandsmeistararnir verða hins vegar að sækja meira í Kaplakrika, þar sem liðið var aldrei líklegt til að skora í kvöld. 

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is. 

Maribor 1:0 FH opna loka
90. mín. Það eru fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert