Kemst ÍBV í bikarúrslitin annað árið í röð?

Hólmbert Aron Friðjónsson stekkur hæst í viðureign Stjörnunnar og ÍBV …
Hólmbert Aron Friðjónsson stekkur hæst í viðureign Stjörnunnar og ÍBV í vor. mbl.is/Golli

Fyrri undanúrslitaleikurinn í Borgunarbikarkeppni karla í knattspyrnu fer fram á Samsung-vellinum í Garðabæ í dag þegar Stjarnan og ÍBV leiða saman hesta sína.

Flautað verður til leiks í Garðabænum klukkan 17.30. Viðbúið er að færri stuðningsmenn ÍBV muni vera á vellinum í dag til að styðja við bakið á sínum mönnum. Vegna grynninga í Landeyjahöfn siglir Herjólfur ekki á milli lands og Eyja klukkan 13.45 og voru stuðningsmenn ÍBV hvattir til að taka ferjuna sem lagði af stað klukkan 11 í morgun á stuðningsmannagrúbbu ÍBV á Facebook.

Eyjamenn stefna á að komast í úrslitaleikinn á Laugardalsvellinum annað árið í röð en þeir léku til úrslita á móti Val í fyrra þar sem þeir töpuðu, 2:0. ÍBV hefur gengið illa í Pepsi-deildinni síðustu vikurnar en liðið hefur aðeins innbyrt eitt stig úr síðustu fimm leikjum.

Stjörnumenn hafa hins vegar verið í góðum gír. Þeir hafa unnið síðustu tvo leiki sína í deildinni og skelltu spútnikliði Grindvíkinga, 5:0, um síðustu helgi. Stjarnan og ÍBV mættust í 2. umferðinni í Pepsi-deildinni í vor þar sem Stjörnumenn unnu, 5:0, sigur.

Hinn undanúrslitaleikurinn á milli FH og Leiknis Reykjavíkur fer fram í Kaplakrika á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert