KR upp í fimmta sætið

Ægir Jarl Jónasson og Finnur Orri Margeirsson í baráttunni í …
Ægir Jarl Jónasson og Finnur Orri Margeirsson í baráttunni í Vesturbænum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

KR tók á móti Fjölni í Pepsi-deild karla í knattspyrnu á Alvogen-vellinum í kvöld. Leikurinn átti að fara fram í 10. umferðinni en honum var frestað vegna Evrópuleikja KR-inga. Leiknum lauk með afar sanngjörnum 2:0 sigri heimamanna.

Bæði lið spiluðu með 4-4-2 leikkerfi og freistuðu þess að sækja en leikurinn var í járnum lengst af í fyrri hálfleik. Síðustu fimm mínúturnar voru hins vegar eign heimamanna. Fyrst misnotaði Kennie Chopart algjört dauðafæri þegar hann skallaði boltann af stuttu færi í fangið á Þórði Ingasyni í markinu. Síðan átti Óskar Örn Hauksson frábært skot sem fór rétt framhjá. Aðeins mínútu síðar var ísinn brotinn þegar Pálmi Rafn Pálmason fékk boltann fyrir utan vítateig, lagði boltann fyrir vinstri fótinn og skoraði með laglegu skoti, stöngin inn.

Í síðari hálfleik voru yfirburðir KR algjörir. Kennie Chopart og André Bjerregaard skiptust á að koma sér í færi en á 75. mínútu var það svo Óskar Örn Hauksson sem tvöfaldaði forystu heimamanna. Hann átti þá fast skot við vítateigslínuna sem fór af varnarmanni, breytti um stefnu og endaði í netinu eftir að Þórður Ingason hafði skutlað sér í vitlaust horn.

Fleiri urðu mörkin ekki en niðurstaðan engu að síður afar sanngjarn sigur KR sem virðist hafa fundið taktinn á nýjan leik eftir erfiða byrjun á mótinu. KR-ingar eru nú komnir í fimmta sætið með 17 stig en Fjölnir færir sig niður í það níunda, neðst fjögurra liða með 15 stig á markatölu.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is.

KR 2:0 Fjölnir opna loka
90. mín. Mario Tadejevic (Fjölnir) fær gult spjald Fór harkalega í André Bjerregaard við hornfánann og uppsker gult spjald.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert