Þessi bolti hefði farið inn hvort eð er

Frá leik KR og Fjölnis í kvöld.
Frá leik KR og Fjölnis í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum ekkert búnir að ná í alltof marga sigurleiki í sumar en þeir eru komnir tveir í röð núna,“ sagði kátur Óskar Örn Hauksson eftir að hann skoraði í 2:0 sigri KR á Fjölni á Alvogen-vellinum í Pepsi-deild karla í kvöld. Leikurinn átti að fara fram í 10. umferðinni en var frestað vegna Evrópuverkefna KR.

Eftir mjög jafnan leik fyrstu 35 mínúturnar byrjuðu KR-ingar að sölsa undir sig öll völd á vellinum og stuttu fyrir hálfleik skoraði Pálmi Rafn Pálmason fyrsta markið með vinstri fótar skoti, stöngin inn. Eftir það var sigur KR aldrei í hættu og er liðið nú komið í fimmta sæti deildarinnar eftir afleita byrjun í sumar en öll liðin hafa nú leikið 12 sinnum.

„Við vorum dálítið lengi í gang en þegar Pálmi skorar erum við með leikinn undir kontról og klárum hann sterkt. Þetta er bara einfalt, þegar vel gengur þá eru allir ánægðir og öfugt. Auðvitað ætluðum við að vera á öðrum stað akkúrat núna en við getum ekkert gert annað en að halda áfram. Nú eru komnir tveir sigrar í röð og við sjáum til hver staðan verður í haust.“

André Bjerregaard var að spila sinn annan deildarleik fyrir KR en þessi danski framherji kom til félagsins frá Horsens í Danmörku á dögunum. Óskar Örn er hæstánægður með nýja samherjann sinn.

„Hann kemur með aðra vídd inn í okkar sóknarleik og hentar okkur vel. Með honum hefur komið öðruvísi líf í þetta og ég er ánægður með hans innkomu.“

Það virtist vera smá heppnisstimpill yfir því þegar Óskar Örn skoraði annað mark KR í leiknum en skot hans fór af varnarmanni og í netið. Eru þetta svona hlutir sem voru ekki að detta fyrir Vesturbæinga í byrjun móts?

„Það má segja það, þessi bolti hefði farið inn hvort eð er en auðvitað dettur þetta oft fyrir mann þegar það gengur vel. Eigum við ekki að segja að þetta sé farið að detta aðeins með okkur núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert