Viðar hefur ekkert að gera hingað heim

Frá leiknum í Vesturbænum í kvöld.
Frá leiknum í Vesturbænum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er leiðinlegt að tapa en þetta er erfiður útivöllur,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, eftir 2:0 tap gegn KR á Alvogen-vellinum í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Fyrstu 35 mínúturnar vorum við bara mjög öflugir og áttum hugsanlega að fá víti. Svo snerist það við, ef þú skorar ekki mörk mun lið eins og KR ganga á lagið og þeir unnu sanngjarnt.“

Fjölnismenn vildu vítaspyrnu snemma leiks þegar Marcus Solberg virtist vera felldur inn í vítateig, hefði átt að dæma?

„Mér sýndist það já. Það voru nokkur augu sem sáu þetta og sögðu að þetta væri víti og það er fúlt að fá það ekki.“

Fjölnismenn byrjuðu leikinn mjög vel en náðu svo ekki að halda dampi og var lokaútkoman gríðarlega sanngjarn sigur heimamanna, var Ágúst sáttur með spilamennsku liðsins?

„Ef þú horfir á fyrstu 35 mínúturnar þá skapaði KR ekki eitt né neitt. Svo þegar þú nærð ekki að skora, þá missum við aðeins móðinn og KR bara gekk á lagið. Við náðum ekki að koma okkur í stöður og þeir refsuðu.“

Eftir að Pálmi Rafn Pálmason hafði komið KR yfir rétt fyrir hálfleik tvöfaldaði Óskar Örn Hauksson forystuna með marki á 75. mínútu sem gerði lokaútslagið að mati Ágústs.

„Maður hefði viljað komast í 80 mínútur með bara eitt mark á milli, þá hefðum við getum spýtt í lófanna og reynt að gera eitthvað fram á við.“

Birnir Snær Ingason var tekinn af velli á 57. mínútu vegna meiðsla en Ágúst vildi einfaldlega ekki taka neina áhættu með hann úr því sem komið var.

„Við vorum komnir 2:0 undir og tókum enga áhættu með það og við tókum hann bara útaf.“

Ætlar Fjölnir að styrkja sig frekar í félagaskiptaglugganum?

„Það er ekkert á döfinni en við sjáum bara til. Það eru engin nöfn á borði en ef það eru einhverjir spennandi Íslendingar þá sjáum við til.“

Viðar Ari Jónsson gekk til liðs við Brann í Noregi frá Fjölni fyrr á árinu en hann hefur lítið fengið að spila þar, gæti hann snúið aftur heim?

„Það væri draumurinn að fá Vidda heim, hann er frábær leikmaður, en ég held ekki. Hann er kominn út, vill vera þar og hefur ekkert að gera hingað heim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert