Indriði leggur skóna á hilluna

Indriði Sigurðsson.
Indriði Sigurðsson. mbl.is/Sindri

Indriði Sigurðsson, fyrirliði KR í knattspyrnu, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna en þetta kemur fram í yfirlýsingu sem KR hefur sent frá sér.

Yfirlýsingin:

„Indriði Sigurðsson, fyrirliði KR, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna núna. Hann hefur glímt við meiðsli í allt sumar og er ákvörðunin samkvæmt ráðleggingum lækna og sjúkraþjálfara.

Indriði varð tvöfaldur meistari með KR árið 1999 og hélt í framhaldinu út í atvinnumennsku.  Hann sneri aftur til uppeldisfélagsins að loknum glæstum atvinnumannaferli fyrir keppnistímabilið í fyrra.

Knattspyrnudeild KR þakkar Indriða fyrir framlag hans inni á knattspyrnuvellinum en mun engu að síður áfram njóta starfskrafta hans út þetta keppnistímabil, hið minnsta.“

Indriði er 15. leikjahæsti íslenski knattspyrnumaðurinn í deildarkeppni en hann á að baki 422 leiki á Íslandi, Norgi og í Belgíu. Hann kom við sögu í 6 leikjum KR-inga í Pepsi-deildinni á tímabilinu. Þá lék hann 65 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og var lengi fastamaður í landsliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert