Okkar klaufagangur

Grétar Sigfinnur Sigurðarson lætur finna fyrir sér í leik gegn …
Grétar Sigfinnur Sigurðarson lætur finna fyrir sér í leik gegn Haukum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grétar Sigfinnur Sigurðarson, fyrirliði Þróttar, átti fínan leik í gærkvöld þrátt fyrir að lið hans hafi tapað 2:0 fyrir Þór á Akureyri í Inkasso-deildinni í knattspyrnu.

Fyrirliðinn kom í viðtal eftir leik og hafði þetta að segja:

„Leikurinn var erfiður og hvorki góður hjá okkur né þeim. Þetta var algjör óþarfi hjá okkur. Þeir refsa okkur fyrir mistök okkar og voru í sjálfu sér ekki að gera neitt. Mér fannst þetta leikur tveggja hálfleika. Í fyrri hálfleik unnum við baráttuna og byrjuðum vel. Við fengum svo þetta mark á okkur undir lok hálfleiksins, sem átti aldrei að gerast. Þeir unnu svo baráttuna í seinni hálfleik.

Mér fannst við alveg eiga skilið að ná einhverju út úr þessum leik því við vorum alveg traustir varnarlega en það vantaði að skapa betri færi. Við vorum eina liðið sem spilaði fótbolta í þessum leik en töpuðum baráttunni í seinni hálfleik.“

Nú missið þið af stigum í toppslagnum og hafið verið að gera það í síðustu útileikjum.

„Það var séns að komast í annað sætið með því að vinna Þór en við verðum bara að halda áfram. Okkur hefur gengið vel en þekkjum það alveg að tapa og erum ekkert að væla yfir því. Þórsliðið er gott og hefur verið á miklu skriði. Við vissum alveg að hér yrði barist en það var okkar klaufagangur sem gaf þeim sigur. Nú er þetta fjögurra liða barátta og verður eflaust þannig til loka. Það verður bara gaman að vera í þeim slag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert