Það er yndislegt að spila með Hólmfríði

Betsy Hasset
Betsy Hasset Ljósmynd/Twitter-síða KR

Nýsjálenski landsliðsmaðurinn Betsy Hassett var hæstánægð eftir 2:0 sigur KR á FH í 13. Umferð Pepsi-deildar kvenna í kvöld. Þetta var aðeins annar leikur Hassett sem gekk til liðs við KR í sumarglugganum.

„Þetta var mikilvægur sigur fyrir okkur. Við spiluðum vel, lögðum hart að okkur og við getum byggt á þessu fyrir seinni helming tímabilsins, við viljum halda þessari sigurgöngu áfram.“

KR-liðið bakkaði mikið í síðari hálfleik og reyndu að halda fengnum hlut en Hassett segir að það hafi verið uppleggið.

„Við vildum halda í sigurinn, það var mikilvægt. Við lásum bara í leikinn, bökkuðum aftur og lögðum upp með að þær myndu ekki skora.“

Hassett hefur spilað með liðum á borð við Manchester City og Ajax ásamt því að eiga 81 landsleik fyrir Nýja-Sjáland, hvers vegna kom hún til Íslands?

„Ég kom hingað til að spila með bestu vinkonu minni [Katrínu Ómarsdóttur] sem ég spilaði með í Bandaríkjunum, við elskum að spila saman á miðjunni. Ég vildi gjarnan koma til ungs liðs sem er aðeins neðar í töflunni, það er frábær áskorun og vonandi getum við byggt upp gott lið saman.“

Hvernig hefur henni gengið að aðlagast íslenska boltanum?

„Stelpurnar tóku mér vel og við vinnum vel saman. Það var gott að fá mánuð til að æfa með þeim áður en við byrjuðum að spila og við erum á sömu bylgjulengd, spilum vel saman.“

Hassett er mikill aðdáandi Hólmfríðar Magnúsdóttir sem var frábær í leiknum og skoraði bæði mörk liðsins.

„Hún er frábær, svo sterk og snögg. Hún spilar auðvitað með landsliðinu og er mjög mikilvægur leikmaður í liðinu, það er yndislegt að spila með henni,“ sagði Hassett að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert