Start kaupir Kristján Flóka af FH

Kristján Flóki Finnbogason í leik með FH.
Kristján Flóki Finnbogason í leik með FH. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Norska B-deildarfélagið Start hefur fest kaup á Kristjáni Flóka Finnbogasyni, framherja FH, en þetta kemur fram á heimasíðu Start. Kristján Flóki skrifar undir þriggja og hálfs árs samning við félagið. 

Kristján Flóki hefur skorað átta mörk í 14 leikjum í Pepsi-deildinni á tímabilinu og hefur hann alls skorað 20 mörk í 67 leikjum fyrir Hafnarfjarðarliðið. Kristján er uppalinn FH-ingur en hann var á mála hjá FC Kaupmannahöfn í Danmörku frá 2013-2015. 

Yfirmaður íþróttamála hjá Start, Tor Kristian Karlsen segist hafa fylgst lengi með Kristjáni og er hann hæstánægður með nýja leikmanninn. 

„Ég hef fylgst lengi með Kristjáni. Hann er líkamlega sterkur og góður skallamaður. Hann er enn ungur og hann getur náð langt. Við munum gefa honum tíma til að aðlagast, en við höfum trú á að hann geti slegið í gegn hjá okkur," sagði Karlsen í samtali við heimasíðu Start. 

Start, sem er í öðru sæti B-deildarinnar eftir að hafa fallið úr úrvalsdeildinni í fyrra, leikur gegn Tromsdalen á sunnudag og gæti Kristján Flóki þá leikið sinn fyrsta leik með liðinu. Guðmundur Kristjánsson er leikmaður Start. 

Kristján Flóki verður áttundi íslenski knattspyrnumaðurinn sem hefur leikið með Start en hinir eru Guðmundur Kristjánsson, Ingvar Jónsson, Matthías Vilhjálmsson, Haraldur Freyr Guðmundsson, Jóhannes Harðarson, Guðni Rúnar Helgason og Guðbjörn Tryggvason. Þá þjálfaði Guðjón Þórðarson lið Start hluta af tímabilinu 2002.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert