Umræða um peninga ekki að trufla FH-inga

Atli Guðnason á ferðinni í síðasta Evrópueinvígi gegn Maribor.
Atli Guðnason á ferðinni í síðasta Evrópueinvígi gegn Maribor. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er alltaf gaman að spila við sterk lið svo þetta verður bara gaman,“ sagði Atli Guðnason, leikmaður FH, í samtali við mbl.is en á morgun mæta FH-ingar liði Braga frá Portúgal í fyrri umspilsleik þeirra um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í vetur.

Atli var þá að halda á fyrstu alvöru æfingu FH-inga fyrir viðureignina á morgun.

„Núna er bara að teikna upp liðið hjá þeim og sjá hvort við getum fundið einhverja veikleika eða eitthvað slíkt. Við þurfum fyrst og fremst að halda markinu hreinu til að eiga möguleika á útivelli,“ sagði Atli, en FH-ingar þurfa að láta vonbrigðin frá úrslitaleik bikarsins á laugardag ekki hafa áhrif á sig.

„Það var hundleiðinlegt að tapa þessum leik, en við áttum ekkert skilið að vinna hann. Ég held að menn séu tilbúnir að snúa þessu við og reyna að gera eitthvað á fimmtudaginn,“ sagði Atli.

Í kringum þessa Evrópuleiki FH-inga hafa peningar verið mikið í spilunum. Ljóst er að mikið er í húfi komist liðið alla leið í riðlakeppnina, en hefur þessi umræða ekki áhrif á leikmenn eða setur á þá aukna pressu?

„Fyrir mér snýst þetta ekki neitt um peninga. Fyrir mér snýst þetta um að langa að spila í riðlakeppninni. Því fylgja náttúrulega peningar og FH mundi fá fullt af peningum, en það breytir því ekki að leikmenn vilji bara spila í riðlakeppninni en ekki bara fá einhverja summu á bankareikninginn. Það skapar ekki aukna pressu nema bara mikill fiðringur að fá að spila svona stóran leik,“ sagði Atli.

Hann vonast til þess að FH-ingar og ekki síður aðrir fjölmenni á leikinn á morgun.

„Þetta er mjög sterkt lið og það er örugglega mjög gaman að horfa á þá spila. Svo ég vona að FH-ingar mæti og aðrir fótboltaunnendur líka til að styðja okkur í þessu að sjá íslenskt lið komast í riðlakeppni í fyrsta skipti,“ sagði Atli Guðnason við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert