Nokkuð ljóst að við förum ekki lengra

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér fannst við mjög góðir í þessum leik á löngum köflum og fyrri hálfleikurinn var virkilega góður af okkar hálfu. Við náðum þá að spila okkur út úr pressu, setja boltana inn fyrir vörnina hjá þeim og skora frábært mark. Í seinni hálfleik keyrði Braga upp hraðann og náði að setja á okkur tvö mörk og vinna leikinn,“ sagði Heimir Guðjónsson þjálfari FH við mbl.is eftir tap sinna manna gegn Braga í Evrópudeildinni í kvöld.

„Ég er svekktur að hafa ekki fengið neitt út úr leiknum í ljósi þess hve leikmenn lögðu mikið í hann. Þeir lögðu sig allir 100% fram í verkefnið. Þegar þú ert kominn á þennan stað þá máttu ekki gera mistök. Þá er þér refsað eins og berlega kom í ljós í kvöld. Þú kemst upp með þetta í Pepsi-deildinni en ekki í Evrópukeppninni.

Ég held að það sé nokkuð ljóst að við förum ekki lengra í Evrópukeppninni að þessu sinni. Ég sé ekki alveg fyrir mér að vinnum seinni leikinn, 2:0, og það á velli þar sem Braga tapar ekki mörgum leikjum. Við munum að sjálfsögðu reyna okkar besta og njóta þess að spila,“ sagði Heimir Guðjónsson við mbl.is.

Spurður út í brotthvarf Kristjáns Flóka Finnbogasonar sem er genginn í raðir norska B-deildarliðsins Start sagði Heimir:

„Auðvitað var tímapunkturinn vondur og vissulega hefði ég vilja hafa hann áfram. Kristján Flóki hefur spilað vel með okkur í sumar og er flottur leikmaður. Ég vil ekki standa í vegi fyrir því að leikmenn FH fari út í atvinnumennsku og klúbburinn heldur ekki. Við fengum gott tilboð í hann sem var samþykkt og Flóki vildi fara. Ég fagna því að hann fái tækifæri sem atvinnumaður og ég vona að honum gangi allt í haginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert