KA lagði tíu Víkinga í Fossvogi

Leikmenn Víkings Reykjavíkur sitja í fimmta sæti deildarinnar fyrir leikinn …
Leikmenn Víkings Reykjavíkur sitja í fimmta sæti deildarinnar fyrir leikinn í dag. mbl.is/Hanna

KA vann 1:0-útisigur á Víkingi R. í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag í fjörugum leik. Alls fóru 11 spjöld á loft og þar af eitt rautt spjald. KA fór upp í sjöunda sæti deildarinnar og er liðið nú einu stigi og einu sæti frá Víkingum.

Víkingarnir fóru betur af stað og settu pressu á KA-menn í upphafi leiks og var það því gegn gangi leiksins þegar Vedran Turkalj skoraði á 12. mínútu með föstu skoti innan teigs í fyrstu alvöru sókn gestanna í leiknum. Víkingum gekk þá illa að koma boltanum í burtu eftir innkast og kláraði Turkalj býsna vel.

Staða Víkinga versnaði svo þegar Vladimir Tufegdzic fékk beint rautt spjald fyrir að sparka í bringuna á Callum Williams á 31. mínútu. Dómurinn var líklega réttur þar sem Serbinn fór af miklum krafti í Williams. Fá færi litu dagsins ljós eftir það í fyrri hálfleiknum, þó að tíu Víkingar væru meira með boltann. Staðan í leikhléi var 1:0, gestunum í vil.

Síðari hálfleikur fór nokkuð rólega af stað en eftir því sem leið á hann fóru Víkingarnir að færa menn framar á völlinn í leit að jöfnunarmarki. Það hafði það í för með sér að KA-menn voru oft á tíðum nálægt því að komast í góð færi í skyndisóknum. Það vantaði hins vegar hjá báðum liðum að skapa góð opin marktækifæri.

Alex Freyr Hilmarsson fékk hins vegar eitt slíkt rétt fyrir leikslok þegar hann fékk boltann rétt hjá markteig en skotið hans var nokkuð beint á Srdjan Rajkovic í marki KA-manna. Alex Freyr fékk nægan tíma til að taka skotið og hefði hann átt að gera mun betur. Arnþór Ingi fékk svo svipað færi í uppbótartíma og skaut hann yfir. Víkingar gátu því sjálfum sér um kennt að hafa ekki jafnað leikinn, en 1:0-sigur KA varð raunin.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is. 

Víkingur R. 0:1 KA opna loka
90. mín. Hallgrímur Mar Steingrímsson (KA) fer af velli Haltrar af velli.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert