Getum verið nokkuð brattir þrátt fyrir tap

Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur.
Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég tek út úr þessum leik að ég er mjög ánægður með lið mitt í dag, held að við getum verið nokkuð brattir þrátt fyrir að tapa hér fyrir frábæru liði Vals,“ sagði Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur eftir 2:0 tap fyrir Val að Hlíðarenda þegar leikið var í efstu deild karla í knattspyrnu, Pepsi-deildinni.

„Við byrjuðum aðeins undir því Valsmenn fundu snemma taktinn sinn því við vorum lengi að finna jafnvægið í okkar varnarleik, það var of mikið pláss milli varnar og miðju svo Valsmenn fengu sín hlaup og hafa sinn takt en þegar við lokuðum svæðum fyrir þeim og pressuðum hreinlega á þá í seinni hálfleik, þá var ég ánægður.“

Gengi Grindavíkur hefi verið örlítið skrykjótt en þjálfarinn er ánægður. „Það er ekkert mál að halda mínum mönnum á tánum. Það er stór munur á þegar við vorum að tapa leikjum þegar við spilum illa og vorum hreinlega hræddir og  frammistöðu eins og í dag.  Mér finnst þroskamerki í mínu liði að sjá hvernig þeir brugðust við mótlæti gegn góðu liði, sem við settum undir algera pressu í seinni hálfleik. Ég hefði mikið viljað sjá hvernig Valur hefði brugðist við ef við hefðum jafnað, því mér fannst við að ná öllum tökum á leiknum en svo sýnir Valur mikil gæði með því að refsa okkur með stórkostlegu marki. Það gæti verið munur á liðunum í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert