Stefna upp á afmælisárinu

Ásgeir Börkur í leik í sumar.
Ásgeir Börkur í leik í sumar. Kristinn Magnúsosn, Kristinn Magnússon

„Þetta var mjög kærkomið. Í fyrsta skipti í sumar höfðum við spilað svona marga leiki án þess að vinna svo þetta var kærkomið,“ sagði Ásgeir Börkur Ásgeirsson, fyrirliði Fylkis, í samtali við Morgunblaðið en Fylkismenn komust aftur á sigurbraut um helgina með 4:1-sigri á Leikni Fáskrúðsfirði.

Albert Brynjar Ingason skoraði þrennu fyrir Fylkismenn, sem höfðu ekki unnið í rétt tæpan mánuð, gert eitt jafntefli og tapað tveimur leikjum. Það kom þó ekki að sök í toppbaráttunni þar sem liðið situr í öðru sæti og er aðeins stigi á eftir Keflavík, rétt eins og Þróttur R. sem vann á föstudag á meðan Keflvíkingar töpuðu. Því skiptir hvert stig máli.

„Algjörlega. Keflavík tapaði sínum leik svo það var bara í okkar höndum að komast nær þeim. Það var annaðhvort að færast lengra frá eða komast nær og ég er ánægður með að við höfum tekið seinni valkostinn,“ sagði Ásgeir Börkur, en það er mikill hugur og mikið hungur í Fylkismönnum að fara beint upp í efstu deild á ný. Ekki síst þar sem félagið Fylkir fagnar 50 ára afmæli sínu í ár.

„Já, vissulega. Þetta er stórt ár fyrir okkur Fylkisfólk, 50 ára afmælisárið, svo ég held að það sé hugur í öllum. Ég held að við höfum verið 10 eða 11 í leiknum sem vorum uppaldir í Fylki, svo þetta telur ansi mikið fyrir okkur. Það væri gaman að skrifa þessa sögu þannig að við færum upp á afmælisárinu. En það eru enn fimm leikir eftir,“ sagði Ásgeir Börkur.

Viðtalið í heild sinni er í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert