Þurfum að vinna leiki, þetta snýst um það

Frá leik Fjölnis og Stjörnunnar í kvöld.
Frá leik Fjölnis og Stjörnunnar í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Það var jafnræði með liðunum allan leikinn en úrslitin eru munurinn á þeim og það er vont fyrir okkur að tapa 4:0 hérna, klárlega,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, eftir 4:0 tap gegn Stjörnunni í 15. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Fjölnismenn voru ósáttir með vítaspyrnuna sem Stjarnan fékk snemma leiks og svo aftur þegar dæmt var af mark sem Þórir Guðjónsson skoraði í byrjun síðari hálfleiks, fannst Ágúst eins og Fjölnir hafi verið flautað úr leik í kvöld?

„Að hluta til fannst mér það. Ég á eftir að sjá þetta aftur en þetta er auðvitað mjög leiðinlegt. Þeir fá aukaspyrnu og vítaspyrnu þar sem menn eru rífandi í hvor annan, ég skil ekki alveg hvað er að gerast þarna. Við komum svo sterkir í seinni hálfleik og ætlum að jafna, skorum svo löglegt mark sem hefði breytt leiknum algjörlega en svo fáum við þriðja markið í andlitið, þá var þetta búið hjá okkur.“

Þrátt fyrir 4:0 tap var oft á tíðum jafnræði með liðunum sem bæði fengu færi, var þetta ekki of stórt tap miðað við hvernig leikurinn spilaðist?

„Mér fannst þetta ekki endilega þeirra [Stjörnunnar] dagur en þeir vinna leikinn 4:0. Við þurfum að læra af þessu og einbeita okkur að því sem eftir er, við breytum þessu ekki en við þurfum að fara að fá stig. Við erum búnir að fá á okkur mikið af mörkum undanfarið og það þarf að laga, við hefðum þurft að skora fimm mörk til að vinna þennan leik en það var aldrei í teningunum, við skoruðum samt eitt löglegt mark.“

Mörgum leikjum Fjölnis hefur verið frestað í sumar og liðið oft lent í óheppilega löngu fríi milli umferða, það hlýtur að hafa eitthvað að segja um slitrótt gengi liðsins?

„Við höfum fengið tvö stór frí í sumar sem er óheppilegt. Við fáum einn leik núna og svo aftur frí, í þriðja sinn. En svo koma sex leikir í röð og þá þarf stigasöfnunin að fara í gang. Það er nóg eftir af þessu móti og þetta er í okkar höndum en við þurfum að vinna fótboltaleiki, þetta snýst um það,“ sagði Ágúst að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert