Valur er á toppnum og við erum að elta

Hilmar Árni Halldórsson skorar fyrsta markið úr vítaspyrnu.
Hilmar Árni Halldórsson skorar fyrsta markið úr vítaspyrnu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég er ánægður með þessi þrjú stig, við náum að vera 2:0 yfir í hálfleik og vorum kannski heppnir með það, Fjölnir er með gott lið,“ sagði Jósef Kristinn Jósefsson eftir 4:0 sigur Stjörnunnar á Fjölni í 15. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Þrátt fyrir fjögurra marka sigur var leikurinn lengi í járnum og Stjörnumönnum virtist ganga illa að ná upp því hraða spili sem þeir eru þekktir fyrir.

„Við viljum spila hratt og vera beinskeyttir en okkur tókst það ekki alveg í kvöld en þetta batnaði í seinni hálfleik. Þeir bökkuðu mikið og það er erfitt að brjóta niður svona varnarleik en við fundum leiðir til að setja þessi fjögur mörk.“

Jósef átti góðan leik, lagði upp tvö af mörkum Stjörnunnar og var valinn maður leiksins, hvað fannst honum um eigin frammistöðu?

„Ég er ánægður með að vera valinn maður leiksins, tvær stoðsendingar er gott og allt það en ég get betur.“

Stjarnan er áfram fimm stigum á eftir toppliði Vals en liðið hlýtur að stefna á titilinn?

„Það eru sjö leikir eftir og fimm stig er ekki neitt þegar svona mikið er eftir. Valur er á toppnum og við erum að elta, við ætlum að reyna að saxa niður forskotið þeirra.“

Það verður risaslagur í næstu umferð þegar Stjarnan tekur á móti Íslandsmeisturum FH á Samsung-vellinum næstkomandi sunnudag, hvernig leggst það verkefni í Jósef?

„Þeir tóku okkur í kennslustund í fyrri leiknum ef við eigum að vera hreinskilnir. Við vorum drullulélegir þá og þurfum að hefna þess, ef menn geta ekki gírað sig upp í þetta einvígi þá er eitthvað að.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert