Ármann Smári verður aðstoðarþjálfari ÍA

Ármann Smári Björnsson.
Ármann Smári Björnsson. Ljósmynd/Eva Björk Ægisdóttir

Ármann Smári Björnsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari knattspyrnuliðs ÍA. Hann verður Jóni Þór Haukssyni til halds og trausts, en Jón stýrir Skagamönnum það sem eftir lifir leiktíðar eftir að Gunnlaugur Jónsson hætti með liðið í gær. 

Þórður Guðjónsson og Sigurður Jónsson munu einnig aðstoða Jón það sem eftir lifir leiktíðar. 

„Ég er mjög ánægður með þessa niðurstöðu því þetta eru reynslumiklir menn með mikinn karakter. Það er mikilvægt fyrir okkur að þeir svöruðu kallinu fljótt og vel. Allir með Skagahjartað á réttum stað og tilbúnir að hjálpa liðinu,” segir þjálfari liðsins Jón Þór Hauksson.

Ármann Smári lék með ÍA frá 2012-2016 en varð að leggja skóna á hilluna eftir síðasta sumar vegna meiðsla. 

ÍA er í neðsta sæti Pepsi-deildarinnar, sex stigum frá öruggu sæti þegar sex leikir eru eftir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert