Rakel með fernu í stórsigri

Rakel Hönnudóttir með boltann í leiknum í kvöld.
Rakel Hönnudóttir með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Breiðablik vann stórsigur, 7:2, gegn Haukum á Kópavogsvelli í kvöld í 14. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu.

Heimamenn hófu leikinn á leifturhraða og skoruðu strax á 3. mínútu þegar Svava Rós Guðmundsdóttir sendi boltann fyrir frá hægri kantinum á Rakel Hönnudóttur sem skoraði af stuttu færi. Svava Rós var allt í öllu á upphafsmínútunum er Breiðablik fékk hvert dauðafærið á eftir öðru og á 9. mínútu var forystan tvöfölduð. Svava Rós átti þá sendingu á Berglindi Björg Þorvaldsdóttur sem skoraði laglegt mark af stuttu færi.

Áfram héldu heimamenn að þjarma að gestunum og á 22. mínútu kom þriðja markið. Berglind Björg renndi þá boltanum frá vinstri inn í teig og fann Selmu Sól Magnúsdóttur sem potaði inn af stuttu færi. Gestirnir svöruðu þó á 27. mínútu þegar Þórdís Elva Ágústsdóttir sendi langa sendingu á Vienne Behnke sem skoraði með föstu skoti framhjá Sonný Láru Þráinsdóttur í marki Blika.

Haukakonur virtust jafnvel ætla gera sig líklega til að snúa taflinu við þegar þær minnkuðu muninn enn frekar á 51. mínútu. Klaufagangur í vörn Blika varð til þess að Heiða Rakel Guðmundsdóttir slapp í gegn áður en hún renndi boltanum á Alexöndru Jóhannsdóttur sem skoraði af stuttu færi.

Þetta virtist þó vekja heimamenn sem svöruðu af krafti. Rakel Hönnudóttir skoraði sitt annað mark á 56. mínútu eftir sendingu frá Fanndísi og hún kláraði þrennuna svo fjórum mínútum síðar með skoti af stuttu færi, frábær leikur hjá Rakel.

Á 74. mínútu kom svo mark leiksins. Fanndís Friðriksdóttir lagði þá boltann fyrir sig einhverja 25 metra frá marki og þrumaði honum í bláhornið, glæsilegt mark. Þær voru þó ekki búnar og á 86. mínútu skoraði Rakel sitt fjórða mark eftir hornspyrnu Selmu Sól og er hún þar með búin að tvöfalda markafjölda sinn í allt sumar.

Breiðablik fer upp í annað sætið með þessum sigri og er nú með 30 stig, átta stigum á eftir toppliði Þórs/KA. Haukar bíða áfram eftir sínum fyrsta sigri í sumar og eru langneðstir með eitt stig þegar 14 umferðir hafa verið leiknar.

Breiðablik 7:2 Haukar opna loka
90. mín. Vienna Behnke (Haukar) á skot sem er varið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert