Langt síðan ég skoraði fjögur í einum leik

Rakel Hönnudóttir skoraði fjögur í kvöld.
Rakel Hönnudóttir skoraði fjögur í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Það er langt síðan að ég skoraði fjögur mörk í einum leik, sennilega ekki síðan ég hætti að spila sem framherji, þetta er bara mjög skemmtilegt,“ sagði Rakel Hönnudóttir eftir að hún skoraði fernu í 7:2 stórsigri Breiðabliks á Haukum í 14. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Við létum boltann ganga vel á milli manna og þó við höfum dottið niður á nokkrum köflum þá spiluðum við heilt yfir vel. Við fáum á okkur tvö mörk sem við þurfum að skoða, ég var ekkert sérstaklega ánægð með það en ég hafði samt ekki áhyggjur.“

Breiðablik hefur oft á tíðum leikið stórvel í sumar en er samt sem áður átta stigum frá toppliði Þórs/KA og á í raun lítinn möguleika á að ná því. Hvers vegna er bilið svona breitt?

„Við erum búin að taka nokkra leiki þar sem við höfum spilað undir getu og það telur. Suma leiki höfum við spilað vel og svo eru aðrir sem við varla mætum í. Við berjumst þangað til að þetta er búið en auðvitað er sénsinn lítill, við áttum okkur á því. Við verðum auðvitað að spila upp á stoltið líka, [annað sætið] veitir manni engin verðlaun en skiptir samt máli,“ sagði Rakel að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert