Bjartur sá fjórði yngsti

Úr leik Víkings Ó. og Víkings R. á mánudag.
Úr leik Víkings Ó. og Víkings R. á mánudag. Ljósmynd/Tómas Freyr Kristjánsson

Víkingur úr Ólafsvík varð í fyrradag annað félagið á fimm dögum til að tefla fram 15 ára gömlum leikmanni í efstu deild karla. Bjartur Bjarmi Barkarson kom inná sem varamaður gegn Víkingi R. í fyrradag, 15 ára og 141 dags gamall. Hann er yngsti leikmaður í sögu Ólafsvíkinga í efstu deild og sá fjórði yngsti sem spilar í deildinni frá upphafi. Baldur Logi Guðlaugsson, sem lék með FH gegn Víkingi R. síðasta fimmtudag, seig þar með niður í sjötta sætið á aldurslista deildarinnar.

*Andri Rúnar Bjarnason er kominn með 18 mörk fyrir Grindavík og er aðeins einu marki frá því að jafna markametið þegar tveimur umferðum er ólokið eftir að hafa skorað tvö mörk gegn Breiðabliki. Árangur Andra er þegar orðinn sá fimmti besti í efstu deild frá upphafi og hann er sá fyrsti til að skora 18 mörk í deildinni á þessari öld.

Tryggvi Guðmundsson varð síðastur til þess árið 1997 þegar hann skoraði 19 mörk fyrir ÍBV og varð sá þriðji til að jafna markamet Péturs Péturssonar sem gerði 19 mörk fyrir ÍA árið 1978. Guðmundur Torfason úr Fram jafnaði það 1986 og Þórður Guðjónsson úr ÍA 1993.

*Grindavík vann Breiðablik 4:3 í umræddum leik en þegar horft er til sögunnar þarf markaskorið ekki að koma á óvart. Grindavík hefur tvisvar unnið Breiðablik 6:3 í deildinni (1995 og 2008) og einu sinni áður 4:3 (2000). Þá hafa félögin unnið hvort annað tvívegis með markatölunni 4:2 í efstu deild.

Fleiri punkta úr 20. umferðinni, lið umferðarinnar og staðan í M-gjöfinni má finna í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert