Ásmundur ráðinn til Breiðabliks

Ásmundur Arnarsson.
Ásmundur Arnarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Arnarsson hefur verið ráðinn þjálfari 2. og 3. flokks kvenna hjá Breiðabliki ásamt kvennaliði Augnabliks, en þetta kemur fram á heimasíðu Blika.

Ásmundur stýrði síðast Fram í 1. deild karla en var látinn fara um mitt sumar. Hann hafði áður þjálfað yngri flokka Fram og Völsungs auk karlaliða Fjölnis, Fylkis og ÍBV.

„Það er mikið fagnaðarerindi fyrir Blika að fá jafn reynslumikinn og góðan þjálfara til liðs við félagið,“ segir í tilkynningu Blika.

„Útlit er fyrir að Breiðablik tefli fram þremur liðum í 3.flokki kvenna á tímabilinu og einu liði í 2.flokki. Að auki munu flokkarnir skipa lið Augnabliks kvenna. Augnablik er að hefja sitt fjórða tímabil og leikur í 2.deild á næsta tímabili. Markmiðið með verkefninu er að efnilegustu leikmenn félagsins fái verkefni við hæfi og geti í kjölfarið stigið skrefið upp í deild þeirra bestu með meistaraflokki Breiðabliks. Þess má geta að í sumar komu fjórir leikmenn við sögu hjá meistaraflokki Breiðabliks sem hafa spilað fyrir Augnablik á síðastliðnum árum,“ segir þar ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert