Sveinn tryggði Blikum sætið

Breiðablik tryggði sér áframhaldandi sæti í úrvalsdeild karla í knattspyrnu í dag með sigri gegn ÍBV á Kópavogsvellinum, 3:2, þar sem Sveinn Aron Guðjohnsen skoraði sigurmarkið í uppbótartíma.

Blikar eru með 27 stig og komnir í örugga höfn. Eyjamenn eru með 22 stig og slást við Víking frá Ólafsvík í lokaumferðinni um áframhaldandi sæti í deildinni. ÍBV mætir þá KA á heimavelli á meðan Ólafsvíkingar sækja Skagamenn heim. Ólafsvíkingar gerðu jafntefli, 1:1, við FH og eru með 21 stig. 

ÍBV náði forystunni á 31. mínútu þegar Shahab Zahedi skoraði með óvæntu þrumuskoti af 25 metra færi, 0:1.

Gísli Eyjólfsson jafnaði metin fyrir Blika á 38. mínútu með skalla af markteig eftir að Aron Bjarnason komst að endamörkum hægra megin og sendi fyrir markið og staðan var 1:1 í hálfleik.

Eyjamenn fengu vítaspyrnu á 53. mínútu þegar boltinn fór í hönd Arnþórs Ara Atlasonar eftir hornspyrnu Gunnar Heiðar Þorvaldsson tók hana og skoraði af öryggi, 1:2.

Blikar voru aftur snöggir að jafna því á 59. mínútu fengu þeir vítaspyrnu þegar brotið var á Elfari Frey Helgasyni. Hrvoje Tokic tók spyrnuna og þrumaði boltanum í vinstra hornið, 2:2.

Litlu munaði að Kaj Leo í Bartalsstovu kæmi ÍBV yfir á ný á 87. mínútu þegar hann sneri sér skemmtilega í vítateignum og skaut hárfínt framhjá Blikamarkinu.

En á annarri mínútu í uppbótartíma tók Kristinn Jónsson aukaspyrnu á hægri kantinum og sendi inní vítateginn þar sem Sveinn Aron var mættur, renndi sér í boltann og sendi hann í vinstra hornið, 3:2.

Breiðablik 3:2 ÍBV opna loka
90. mín. Hafsteinn Briem (ÍBV) á skot framhjá Eftir aukaspyrnu Pablo og skalla Atkinsons, rétt framhjá.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert