Evrópuslagur og botnbarátta

Fjölnir og Víkingur Ólafsvík eru í hörðum fallslag. Fjölnir leikur …
Fjölnir og Víkingur Ólafsvík eru í hörðum fallslag. Fjölnir leikur við KR og Víkingur við FH. mbl.is/Golli

Stjarnan og FH geta tryggt sér Evrópusæti í dag og Víkingur úr Ólafsvík gæti fallið þegar 21. og næstsíðasta umferðin í Pepsi-deild karla í knattspyrnu verður leikin en allir sex leikirnir hefjast klukkan 14.

Stjarnan með 35 stig, FH með 34 og KR með 30 stig berjast um Evrópusætin tvö sem eru á lausu en Íslandsmeistarar Vals og bikarmeistarar ÍBV hafa tryggt sér hin tvö. KR þarf á sigri að halda í dag og treysta á að annaðhvort Stjarnan eða FH misstígi sig til þess að halda keppninni opinni til síðustu umferðarinnar.

Ef Stjarnan nær í stig gegn Val og FH vinnur Víking í Ólafsvík er ljóst að Stjarnan og FH hreppa Evrópusætin verðmætu.

Breiðablik með 24 stig, Fjölnir með 24, ÍBV með 22 og Víkingur Ó. með 20 stig eru í slagnum um að forðast að fara niður í 1. deild með Skagamönnum sem eru þegar fallnir. Ef Ólafsvíkingar tapa í dag og ÍBV nær í stig er nokkuð ljóst að Ólsarar fara niður þar sem þeir eru tólf mörkum á eftir ÍBV í markatölu fyrir leiki dagsins. Takist þeim hins vegar að vinna FH gætu þessi fjögur lið öll verið í fallbaráttu áfram í lokaumferðinni.

Viðureign Breiðabliks og ÍBV á Kópavogsvelli er afar áhugaverð en þar eru bæði liðin í baráttunni um að gulltryggja sæti sitt í deildinni.

Leikirnir sex eru eftirtaldir:

Stjarnan - Valur
KA - Grindavík
Fjölnir - KR
Breiðablik - ÍBV
Víkingur Ó. - FH
Víkingur R. - ÍA

Á Akureyri verða allra augu á Andra Rúnari Bjarnasyni, framherja Grindavíkur, í leiknum gegn KA en hann hefur skorað 18 mörk og gæti jafnað eða jafnvel slegið markamet deildarinnar sem er 19 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert