Gáfum þeim þessi mörk

Óli Stefán Flóventsson
Óli Stefán Flóventsson Ljósmynd/Sigfús Gunnar Guðmundsson

Óli Stefán Flóventsson er heldur betur búinn að sanna sig í sumar sem þjálfari í Pepsi-deildinni. Hann þurfti í dag að lúta í gras með lið sitt þegar KA lagði Grindavík í næstsíðustu umferð deildarinnar. KA vann 2:1 í jöfnum leik sem ekki bauð upp á mörg færi.

En hvað sagði Óli Stefán eftir leik?

„Við vorum ekki að spila illa en gáfum þeim þessi mörk, því miður. Og enn lendum við undir. Við vinnum sem lið og töpum sem lið og það var súrt að tapa þessum leik. Gegn svona sterku varnarliði er ekki gott að lenda undir og enn verra að gefa þeim tvö mörk.“

En þegar þú tekur sumarið saman. Eruð þið á svipuðum stað og þú reiknaðir með?

„Já ég verð að vera heiðarlegur og segja það. Ég hef haft trú á þessum hóp og við erum að vinna eftir fimm ára plani, sem er að gera Grindavík af stöðugu liði í efstu deild. Við erum komnir langleiðina með það á tveimur árum og því verð ég að vera ánægður með sumarið þótt við höfum tapað full mörgum stigum upp á síðkastið. Það eru kaflar í þessu hjá okkur sem eru að skemma fyrir en það þroskar okkur bara og við verðum að vera menn til að taka því.“

Ertu eitthvað farinn að hugsa um næsta tímabil?

„Nei ekki neitt. Við eigum að spila gegn Fjölni næst og það verður bara enn einn slagurinn. Ég hugsa bara um þann leik næstu daga.“

Hvað með markametið sem Andri Rúnar Bjarnason er að eltast við. Spáir þú eitthvað í það?

„Hann hefur hjálpað okkur mikið með markaskorun í sumar og við höfum aðstoðað hann dyggilega með það. Ég hef alveg fulla trú á að hann eigi eftir að skora a.m.k. eitt mark til viðbótar og vona að sjálfsögðu að þau verði fleiri. Við verðum bara að halda áfram að gera það sama og við höfum verið að gera. Við megum ekki breyta neinu bara til að reyna að láta hann skora. Þá riðlast allt“ sagði hinn magnaði þjálfari að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert