Stjarnan mætir landsliði

Lára Kristín Pedersen í baráttu gegn rússneska liðinu Rossijanka í …
Lára Kristín Pedersen í baráttu gegn rússneska liðinu Rossijanka í síðustu umferð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjarnan mætir nánast landsliði Tékklands í sextán liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu í næsta mánuði. Slavia Prag, sem verður mótherji Garðabæjarliðsins, var með ellefu leikmenn í tékkneska landsliðinu sem vann Færeyjar 8:0 og tapaði 0:1 fyrir Þýskalandi í undankeppni HM í síðasta mánuði, og mætir Íslandi á þriðjudaginn í næstu viku.

Leikmenn Slavia Prag skoruðu sjö af átta mörkum Tékka í Færeyjum, þar sem Tereza Kozárová gerði þrjú mörk, Katerina Svitková tvö og Petra Divisová eitt. Þrír framherjar Slavia, fimm miðjumenn, einn varnarmaður og markvörður Slavia tóku þátt í HM-leikjunum tveimur, auk þess sem liðið átti bæði aðalmarkvörð og varamarkvörð landsliðsins.

Slavia vann Minsk frá Hvíta-Rússlandi, 3:1 á útivelli og 4:3 á heimavelli, í 32 liða úrslitum keppninnar en Tékkarnir þurftu ekki að fara í forkeppni eins og Stjarnan.

Slavia vann yfirburðasigur í tékknesku 1. deildinni í fyrra og varð meistari fjórða árið í röð með því að vinna 18 leiki, gera tvö jafntefli, og skora 113 mörk gegn aðeins 12. Það sem af er þessu tímabili hefur Slavia unnið alla níu leiki sína og skorað rúmlega átta mörk að meðaltali en markatala liðsins er 75 mörk gegn sjö.

Slavia komst í 16-liða úrslit í fyrra en tapaði þá 1:3 og 0:3 fyrir Rosengård frá Svíþjóð, sem hafði unnið Breiðablik 1:0 samanlagt í 32 liða úrslitum. Haustið 2015 komst Slavia í 8-liða úrslit, steinlá þar 9:0 gegn Lyon í Frakklandi en náði síðan 0:0-jafntefli gegn franska stórliðinu í heimaleiknum.

Stjarnan leikur fyrst á heimavelli 8. eða 9. nóvember en seinni leikurinn verður í Prag 15. eða 16. nóvember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert